Bæklingur fyrir þá sem starfa í ferðaþjónustu

Félagið ákvað nýlega að láta útbúa bækling með ýmsum upplýsingum fyrir þá sem vinna á veitingastað, hóteli, gistiheimili eða í afþreyingarferðaþjónustu. Þarna er m.a. verið að fjalla um lágmarkshvíld, jafnaðarkaup, vaktavinnu, að reynslutími eða starfsþjálfun er líka vinna og margt fleira.

Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, segir að ástæðan fyrir að þessi störf séu tekin út núna sé sú að fjölmörg mál hafi komið á borð félagsins að undanförnu frá félagsmönnum sem starfa í þessum geira. „Mjög mörg þessara mála snúast um jafnaðarkaup, að vaktir séu ekki rétt settar upp, þ.e. að ekki sé skráð upphaf eða endir á þær. Þá höfum við líka fengið til okkar mál sem snúast um að félagsmenn hafi verið fengnir til reynslu eða í starfsþjálfun en ekki fengið greitt fyrir þá daga sem þeir voru í starfi. Ég sá einmitt grein áðan á vef Vikudags þar sem fjallað er um slíkt mál, þannig að því miður er víða pottur brotinn,“ sagði Björn.

Bæklingnum, sem er í þríbroti, var dreift í öll hús og fyrirtæki á félagssvæðinu með Dagskránni í dag og jafnframt var hann settur í póst á þá staði sem dreifing Dagskrárinnar nær ekki yfir.

Hér má sjá bæklinginn á pdf-formi

Hér má sjá greinina á vef Vikudags sem Björn vitnaði í