Bæjarfulltrúar í heimsókn

Mánudaginn 19. nóvember sl. komu nokkrir bæjarfulltrúar Akureyrarbæjar ásamt Höllu Margréti Tryggvadóttur, sviðsstjóra stjórnsýslusviðs bæjarins, í heimsókn til Einingar-Iðju til að kynna sér starfsemi og þjónustu félagsins. Bæjarstjórinn forfallaðist á síðustu stundu og gat því miður ekki mætt á fundinn, sem hófst á því að Björn formaður félagsins kynnti starfsemina. Hann fór m.a. yfir hvernig félagið væri byggt upp, sjóði félagsins og trúnaðarmenn. Fram kom í máli hans að lang stærsti launagreiðandi sem greiðir til félagsins væri Akureyrarkaupstaður, en rétt rúmlega 17% félagsmanna starfa þar. Hann fjallaði einnig um greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins en fyrstu 10 mánuði ársins eru greiðslur orðnar hærri en allt árið í fyrra. Á fyrstu 10 mánuðum ársins er búið að borga úr sjúkrasjóði rúmlega 136 milljónir króna miðað við rétt rúmlega 135,5 milljónir allt árið 2017. Þar er stæri hlutinn dagpeningar til félagsmanna eða um 103,5 milljónir en allt árið 2017 voru greiddar út tæplega 96,5 milljónir króna í dagpeninga vegna veikinda. 

Hafdís og Eyrún starfsmenn félagsins fóru aðeins yfir helstu málaflokka sem eru að koma inn á borð Einingar-Iðju og hvernig tekið er á málum sem inn koma til félagsins. Þarna má m.a. nefna launa- og orlofsmál, veikinda- og slysarétt, gjaldþrotamál, hvíldatíma, einelti og sjálfboðaliða til að nefna nokkur. Lagt er upp með að öll mál sem koma til félagsins séu unnin eins hratt og aðstæður leyfa en ekkert er gert nema með leyfi viðkomandi félagsmanns. 

Vilhelm, Verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits, sagði aðeins frá starfi sínu við vinnustaðaeftirlitið. Hann sagði að frá því hann var ráðinn í þetta verkefni þann 1. maí 2016 hefur hann skráð rúmlega 2.773 einstaklinga, eða um 92 einstaklinga á mánuði, farið í 213 eftirlitsferðir og farið inn í milli 7 og 800 fyrirtæki og skráð að meðaltali 14 einstaklinga í hverri ferð.

15.000 einstaklingar leitað til VIRK

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, fór yfir þjónustuna hjá VIRK og hlutverk VIRK innan velferðarkerfisins. Í máli hennar kom m.a. fram að á þeim 10 árum síðan VIRK var stofnað hafa 15.000 einstaklingar leitað til VIRK og þar af hafi um 9.000 lokið þjónustu hjá þeim. Um 7.000 einstaklingar hafa náð að verða virkir á vinnumarkaði eða í námi eftir útskrift frá VIRK sem er um 78% af þeim sem útskrifast. Vigdís sagði einnig að 23% fleiri beiðnir hefðu komu til VIRK fyrstu 9 mánuði ársins 2018 en árið 2016. Jafnframt sagði hún að mikil aukning væri á ungu fólki sem væru í þjónustu hjá VIRK. 

Fjölmargar spurningar komu frá gestum fundarins og áttu sér stað góðar umræður á honum, m.a var rætt hvernig hægt væri að koma á meira samstarfi við bæinn og stofnanir hans um ýmis mál sem fjallað var um á fundinum. 

Þessi fundur var sá fyrsti af nokkrum þar sem félagið hefur ákveðið að heimsækja eða fá í heimsókn alla yfirmenn sveitarfélaga við Fjörðinn sem og kjörna fulltrúa viðkomandi sveitarfélags til að kynna félagið og starfsemi þess. Fleiri fundir á þessum nótum munu því fara fram á næstunni.