Við bjóðum félagsmönnum okkar að kaupa ferðaávísun sem tryggir bestu kjörin á gistingu á hótelum og gistiheimilum um allt land. Stéttarfélögin sem eiga aðild að Frímann-kerfinu sameinuðu krafta sína og komust að samkomulagi við fjölmörg hótel og gistiheimili víðs vegar um landið sem bjóða félagsmönnum okkar afar hagstætt verð. Í ofanálag niðurgreiðum við gistinguna um 20% af valinni upphæð. Niðurgreiðslan getur að hámarki verið 15.000 krónur á hverju almannaksári.
Félagsmenn skrá sig inn á orlofsvefinn og kaupa þar ferðaávísun sem gildir á fjölmörg hótel og gistiheimili í öllum landsfjórðungum, án þess að festa dagsetningu dvalarinnar. Þeir velja upphæð ávísunarinnar og greiða fyrir. Þeir bóka því næst gistingu á þeim stað sem þeim hugnast en herbergi, þjónusta og verð er breytilegt á milli gististaða.
Ef svo háttar að umrætt hótel eða gistiheimili er fullt, eða ef ferðaáætlunin tekur breytingum þegar nær ferðinni dregur, er hægt að nota ávísunina hjá hvaða samstarfsaðila sem er, hvenær sem gistipláss er laust og með hvaða tilboði sem er. Þannig hafa félagsmönnum verið tryggð bestu hugsanlegu kjör og útilokað að þeir fari á mis við betri tilboð, til dæmis þegar líður á komandi sumar.
Þegar farið er inn á orlofsvefinn, og smellt á „Ferðaávísun“, opnast síða þar sem viðkomandi þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Þá er hægt að skoða þau fjölmörgu tilboð á gistingu sem félagsmönnum standa til boða. Í boði er allt frá einfaldri gistingu á litlum gistiheimilum upp í vegleg hótelherbergi með fullri þjónustu og dýrindis morgunverði. Einnig er hægt að velja upphæð að eigin vali, til dæmis 5.000 eða 15.000 krónur, og nota hvar sem er þegar land er lagt undir fót. Ávísunin veitir aðgang að bestu tilboðum þessara hótela og gistiheimila. Valið er þitt.
Ferðaávísunin er rafræn og er geymd á þínu svæði á orlofsvefnum. Ávísunin er ekki bundin við tilteknar dagsetningar, einstakt gistiheimili, hótel eða hótelkeðju. Jafnframt geta félagsmenn nýtt ávísunina með hvaða sértilboðum sem samstarfsaðilar okkar kunna að bjóða síðar. Ekki er þörf á að fullnýta þá inneign sem félagsmenn eiga í formi ávísunarinnar hjá einu hóteli eða gistiheimili, heldur getur hún nýst á fleiri gististöðum. Ef dýrari gisting er valin en upphaflega stóð til, greiðir félagsmaðurinn einfaldlega mismuninn á staðnum.
Óhætt er að skora á félagsmenn að huga tímanlega að því að panta gistingu, til að auka líkurnar á að herbergi séu laus á gististaðnum.