Nú stendur yfir formannafundur Alþýðusambands Íslands í húsakynjum Rafiðnaðarskólans við Stórhöfða. Slíkir fundir eru haldnir þau ár sem þing Alþýðusambandsins eru ekki, en þau eru haldin annað hvert ár og var það síðasta í fyrra. Ávarp sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, flutti í upphafi fundar í morgun má lesa hér fyrir neðan.
Nú þegar við setjumst á þennan formannafund milli þinga eru um margt óvenjulegar aðstæður í okkar samfélagi – það er eins og allir haldi niðri í sér andanum í bíði eftir einhverju sem þó er erfitt að átta sig á hvað er. Augljóst er að í landinu ríkir alvarleg pólitísk kreppa sem leitt hefur til þess að enn og aftur stendur þjóðin frammi fyrir því að kjósa til Alþingis í lok vikunnar. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt og uppbyggingu eru þung ský farin að myndast yfir útflutningsstarfseminni – einkum hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum – og vinnumarkaðurinn í algjörri biðstöðu vegna kosninga og undirliggjandi óánægju.
Velferðarmálin skipta launafólk máli
Enginn vafi er á því að pólitískur óstöðugleiki á vettvangi stjórnmálanna hefur haft mjög neikvæð áhrif á vinnumarkaðinn. Óstöðugleikinn hefur leitt til meiri átaka og hamlað því að við getum þróað hann til betri vegar til að geta mætt nýjum áskorunum.
Við höfum deilt við stjórnvöld um raunverulegt inntak hugtaksins ,,stöðugleiki‘‘ þar sem Alþýðusambandið hefur gert kröfu til þess að jafnvægi verði á milli efnahagslegs og félagslegs stöðugleika – að þetta séu tvær hliðar á sama peningi sem hlúa verður jafnt að – og reyndar gengið svo langt að setja það sem fyrirvara við frekari umræðu og þróun á nýju samningamódeli að norrænni fyrirmynd hér á landi.
Stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir þeirri miklu alvöru sem að baki þessari kröfu okkar liggur, þeir verða einfaldlega að koma velferðarmálunum í þann farveg að þau verði í raun reist á grundvelli norrænu samfélagsgerðarinnar. Í aðdraganda kosninga ákvað miðstjórn ASÍ að setja í gang kynningu á því sem við höfum kallað ,,samfélagssáttmála um félagslegan stöðugleika‘‘ þar sem við leggjum áherslu á öflugt heilbrigðiskerfi, öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum, að allir búi við örugga afkomu og aðstæður, að vinnumarkaðurinn byggi á ábyrgum stoðum og traustri velferð og að tekjuöflun hins opinbera byggi á réttlátu skattkerfi.
Stjórnmálaflokkarnir sýna vinnumarkaðnum lítinn áhuga
Ég held að okkur hafi tekist ágætlega að skapa umræðu um áhersluatriði okkar gagnvart velferðarkerfinu en það sama verður ekki sagt um sjálfan vinnumarkaðinn. Það hefur enginn flokkur að því að ég best veit tekið upp áherslur okkar um ábyrgan vinnumarkað með innleiðingu keðjuábyrgðar aðalverktaka og aðgerðir til að sporna gegn félagslegum undirboðum og kennitöluflakki. Það fer miklu meira fyrir loforðum um lækkun tryggingagjaldsins heldur en hækkun atvinnuleysisbóta til jafns við kaupgjald og hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi eru ennþá langt undir meðaltekjum. Þetta áhugaleysi um brýn málefni almenns launafólks er okkur mikið áhyggjuefni sem við verðum einfaldlega að bregðast við, bæði með aukinni áherslu á að kynna þau álitaefni og vandamál sem félagsmenn okkar standa frammi fyrir og á endanum með beinni kröfugerð við gerð kjarasamninga.
Samstaða á þingi um að standa vörð um ákvarðanir kjararáðs
Við höfum einnig gagnrýnt stjórnvöld fyrir að grípa ekki inn í ákvarðanir kjararáðs, sem deilt hefur út launahækkunum til æðstu ráðamanna og embættismanna sem eru í engu samhengi við það sem meginþorri landsmanna hefur fengið að njóta svo um munar. Þrátt fyrir að í lögum um kjararáð séu mjög skýr ákvæði um að ráðið megi ekki verða leiðandi um hvorki launasetningu né launaþróun er það engu að síður staðreynd að svo er. Það er athyglisvert hversu sterk samstaðan er milli flokkanna á Alþingi að halda hlífðarhendi yfir ákvörðunum kjararáðs og segir okkur að ráðið hafði samráð við forystu flokkanna á Alþingi vorið 2016, áður en þessi hækkunarhrina fór í gang, um þessar breytingar.
Fastgengisstefna nýtist launafólki
Ofan í þessa þróun höfum við hjá ASÍ á undanförnum vikum fundað bæði með nefnd stjórnvalda um endurskoðun peningastefnunnar og nokkrum erlendum sérfræðingum sem fengnir hafa verið til þess að gefa álit á heppilegu formi peningastefnunnar. Í þeim samtölum hefur komið fram að eitthvert form fastgengisstefnu sé að mörgu leiti heppilegra en fljótandi gengi með verðbólgumarkmiði. Slík leið er hins vegar ekki fær nema hér takist víðtækt samkomulag milli vinnumarkaðar, stjórnmálanna og Seðlabankans um bæði markmið og verkaskiptingu milli aðila til þess að tryggja forsendur slíkrar fastgengisstefnu. Það er enginn vafi á því að ábati launafólks og almennings af slíku samkomulagi er gríðarlegur, því þannig gætum við bæði tryggt mun lægri verðbólgu og vaxtastig, í landi þar sem almenningur þarf að ráðstafa fimmtungi sinna ráðstöfunartekna í hærri húsnæðisvexti en annarsstaðar í Evrópu.
Ég hef sagt það í ávörpum mínum á þingum bæði Starfsgreinasambandsins og verslunarmanna nýlega og í opinberri umfjöllun, að það sé mitt mat að víðtækt samkomulag milli vinnumarkaðarins og stjórnmálanna um trúverðugt samhengi efnahagslegs og félagslegs stöðugleika sé farsæl leið til þess að koma á meiri festu og trúverðugleika á vettvang stjórnmálanna og vinnumarkaðarins ef vel er á málum haldið. Slík sátt um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika gæti jafnframt lagt grunn að endurskoðun samningalíkansins og þannig rekið traustari stoðir undir fastgengisstefnu og verulega lækkun vaxta.
Ríkisvaldið þurrkar út ábata af hækkun lægstu launa
Ef stjórnmálin hafa einhvern áhuga að þroska slíkt samkomulag er alveg ljóst þau verða að byrja á því að axla ábyrgð á kjararáði. Jafnframt verður launafólk að geta treyst því að staðið verði við það sem samið verður um. Í nýlegri skýrslu hagdeildar ASÍ um þróun skatta og fjölskyldubóta kom fram, að þrátt fyrir að verkalýðshreyfingunni hafi tekist að lyfta grettistaki í hækkun lægstu launa – reyndar svo að hlutfall lægstu launa af meðallaunum er hvergi hærri meðal OECD ríkjanna. Nánast á sama tíma hafa stjórnvöld rýrt verðgildi bæði skattleysismarka og barna- og húsnæðisbóta með þeim hætti að þessi sókn okkar um betri lífskjör fyrir þá tekjulægri hefur verið nettuð út með hærri skattbyrði og lægri bótum.
„Leiðrétting“ í næstu kjarasamningum
Ágætu félagar. Við þessar aðstæður munu kjarasamningar aðildarfélaga ASÍ losna á næsta ári, annað hvort í ársbyrjun vegna forsendubrests gagnvart núgildandi kjarasamningum eða í árslok þegar þeir renna sitt skeið á enda í lok nóvember. Þó það sé í dag ótímabært að segja til um það hvað kann að verða uppi í febrúar nk. varðandi endurskoðun kjarasamninga, er ljóst að aðildarfélögin fara inn í næstu viðræður á óbreyttum forsendum frá síðustu lotu. Það hefur semsagt ekki tekist að endurskoða eða endurnýja íslenska samningamódelið. Það ríkir ekki samstaða um það hvað eigi að liggja til grundvallar skilgreiningum á svigrúmi til launabreytinga og staðreyndin er að ríkið er og hefur verið leiðandi í bæði launasetningu og launaþróun undanfarið. Við þessar aðstæður verða aðildarfélög okkar á almennum vinnumarkaði að freista þess að halda í horfinu og sækja á um ,,leiðréttingu‘‘ sinna félaga á sama tíma og margar greinar atvinnulífsins standa a.m.k. á veikari stoðum en síðast þegar við vorum með opna samninga.
Ólíklegt að ASÍ félögin verði í samfloti í næstu kjaraviðræðum
Þessu tengdu er ljóst að mikil óvissa er um bæði forsendur og vilja til samstarfs innan okkar eigin raða, hvað þá við önnur heildarsamtök. Þó það sé í mínum huga ekki nokkur vafi á því að hreyfingin er sterkari sameinuð en sundruð, er það mín niðurstaða að ekki sé að óbreyttu forsenda fyrir breiðfylkingu í komandi viðræðum við atvinnurekendur. Ég vil auðvitað ekki útiloka neitt og tel að forysta sambandanna og stóru félaganna verði á næstu vikum og mánuðum að setjast yfir málið, en aðstæðurnar núna eru einhvern vegin þannig að maður sér ekki hvert við ættum að sækja límið í slíkt samflot. Hitt er svo annað mál að hreyfingin þarf að skoða það í mikilli alvöru hvernig staðið verður að samskiptum og sameiginlegum kröfum á stjórnvöld því áhugaleysi stjórnmálanna um viðfangsefni vinnumarkaðarins segja okkur að ef við ekki tökum það upp mun enginn gera það. En þá verðum við einnig að ræða hvernig við ætlum að fylgja þeim kröfum eftir.
Skipulagsmál hreyfingarinnar
Á þessum formannafundi ætlum við að ræða tillögur Skipulags- og starfsháttanefndar um félagsaðild og skörun. Ég tel að þessi umræða sé okkur afar mikilvæg og ég ætla ekkert að leyna því að ég hef lengi haft verulegar áhyggjur af stöðu þessara mála innan okkar raða. Það er mitt mat að við einfaldlega verðum að taka þessi skipulagsmál fastari tökum ef við ætlum ekki bara að verja það fyrirkomulag sem við höfum byggt upp heldur sækja fram um endurbætur á því. Ástæðan fyrir þessum áhyggjum er einföld og til að útskýra það hef ég leyft mér að nota árangur í bæði kvenna- og karlalandsliðinu í fótbolta. Það er almennt viðurkennt að stóran hluta þessa árangurs þeirra í undankeppninni á HM megi rekja til annars vegar góðs skipulags á vellinum milli þeirra ,,eininga‘‘ sem þar starfa – vörnin, miðjan og sóknin – í þaulskipulagðri verkaskiptingu þar sem hver leikmaður og eining veit til hvers sé af honum ætlast. Hins vegar hafa menn bent á viðhorf, samstöðu og þeirrar sameiginlegrar sýnar sem einkennir bæði einstaka leikmenn og liðið sem heild og vegna þess þeirrar miklu leikgleiði sem skín í gegn.
Þegar við ræðum þessi skipulagsmál verðum við að hafa það það hugfast að hlutverk og markmið verkalýðshreyfingarinnar um að þróa hér betra samfélag hefur ekkert breyst, þó aðstæður í samfélaginu séu síbreytilegar og nýjar áskoranir birtast okkur í sífellu. Geta okkar til þess að mæta þessum áskorunum er hins vegar nátengd því skipulagi og þeirri verkaskiptingu sem við veljum okkur á hverjum tíma. Aðstæður okkar félagsmanna eru og að breytast við þær hröðu breytingar sem eru að verða á bæði innihaldi starfsins sem og hvernig tengsl hins almenna launamanns við vinnustaðin eru að breytast með vaxandi hlut skammtímaráðninga, verktakavinnu og hvers kyns launamennsku. Við þessar aðstæður megum við ekki festa okkur í skipulagi gærdagsins. Við verðum að þora að horfast í augu við afleiðingar þessarar þróunar gagnvart því verkefni sem okkur er treyst fyrir og finna leiðir til þess að láta skipulagið og leikgleðina vinna með okkur. Þó mikið hafi verið gert að því að sameina félög innan raða Alþýðusambandsins, sem ég held að eigi að halda áfram, hefur í raun lítið nýtt gerst í okkar skipulagsmálum. Ég hef tekið eftir því í umræðunni innan okkar raða að það er mikil tregða við að reyna eitthvað nýtt á sviði samningamála, hvort sem það er nýtt samningamódel eða tilraunir með að sameina ólíka krafta innan einstakra atvinnugreina með svokölluðum kartelsamningum. Hér verðum við að vera okkur meðvituð um það, að ef hreyfingin þarf að beita sér í átökum, og ég þreytist ekkert á því að undirstrika að þær aðstæður eru að skapast, munu þessi atriði skipta sköpum um árangur.
Kynferðisofbeldi á vinnumarkaði verður ekki liðið
En góðir félagar. Á undanförnum vikum höfum við fylgst með samstöðuvakningu kvenna á samfélagsmiðlum um allan heim undir yfirskriftinni ,,metoo‘‘ eða ,,églíka‘‘ þar sem konur vekja athygli á þeirri kynferðislegu áreitni og misnotkun sem þær verða fyrir á vinnumarkaði og í samfélaginu. Það er ekki hægt annað en dáðst af þessu framtaki og þeirri einurð og mikla kjarki sem að baki svona átaki liggur samhliða því að lýsa fullum stuðningi við markmið þess – að konur og karlar geti fengið að sinna störfum sínum án þess að verða fyrir misnotkun af hvaða tagi sem er. Það er einlæg von mín og ósk að allir þeir sem eru misrétti beittir á vinnumarkaði eigi sér bæði skjól og stuðning hjá stéttarfélögunum í landinu því þetta er málefni sem við eigum og verðum að láta okkur varða.
Að lokum vil ég óska okkur velfarnaðar í störfum okkar á fundinum og segi hann settan!