Ávarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, á 7. þingi SGS
Góðir gestir
Ég, ásamt þeirri ríkisstjórn sem nú situr, hef lagt ríka áherslu á samvinnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og ekki síst þess vegna er það mér sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag á ársþingi Starfsgreinasambandsins.
Ég vil byrja á því að nefna að eins og staðan er í dag er aðkoma stjórnvalda að gerð kjarasamninga meiri og mikilvægari en oft áður. Ástæða þess að ég nefni þetta hér strax í upphafi er að sjálfsögðu loforð ríkisstjórnarinnar síðastliðið vor um að ráðast í tilteknar aðgerðir í því skyni að liðka fyrir því að kjarasamningar næðust á almennum vinnumarkaði. Markmiðið með þessum aðgerðum er að skapa hér bæði efnahagslegan sem og félagslegan stöðugleika til næstu ára.
Forsenda fyrir aðgerðum ríkisstjórnarinnar er að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins vinni saman að bættu samspili hagstjórnar og kjarasamninga og nýjum vinnubrögðum á vinnumarkaði en í þeim efnum hef ég þá trú að við getum lært ýmislegt af nágrannaþjóðum okkar.
Stór hluti aðgerðanna sem ríkisstjórnin lofaði í vor að ráðast í heyrir undir málefnasvið félagsmálaráðuneytisins og hef ég lagt mikla áherslu á að fylgja þeim eftir. Má í því sambandi nefna aðgerðir er varða eftirlit á vinnumarkaði, lengingu fæðingarorlofs og húsnæðismál.
Ein veigamesta aðgerðin hvað varðar það að sporna gegn brotastarfsemi á vinumarkaði snýr að því að þau stjórnvöld sem fara með eftirlitsheimildir á vinnumarkaði geri með sér formlegt samkomulag um samstarf í tengslum við eftirlit á vinnumarkaði og myndi með sér samstarfshóp.
Þeir aðilar sem koma að þessu hafa þegar hafið nánara samstarf en um er að ræða Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið, skattyfirvöld og lögregluna og hefur ávinningur af þéttara samstarfi þessara aðila í tengslum við eftirlit á vinnumarkaði þegar komið í ljós. Því ber að fagna. Það er alltaf ánægjulegt að sjá þegar við í okkar litla landi getum snúið bökum saman og sameinað kraftana til að bæta það samfélag sem við búum í.
Til viðbótar má geta þess að fyrir liggja drög að samkomulagi þessara aðila um samstarfið og vænti ég þess að formlega verði gengið frá samkomulaginu á næstu vikum. Næstu skref verða svo að formgera samstarf þessa hóps við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við eftirlit á vinnumarkaði.
Þá hef ég skipað nefnd sem falið hefur verið það verkefni að rita frumvarp þar sem lagðar verða til nauðsynlegar lagabreytingar í ljósi fyrrnefndra aðgerða ríkisstjórnarinnar gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Nefndin hefur þegar hafið störf og geri ég ráð fyrir að leggja frumvarpið fram strax á næsta vorþingi.
Mikil og góð samvinna við verkalýðshreyfinguna skiptir öllu máli hér enda mikilvæg reynsla þar innanborðs þegar kemur að eftirliti með því að ekki sé verið að brjóta kjarasamningsbundin réttindi fólks á vinnumarkaði.
Góðir gestir
Líkt og ég gerði við upphaf þingvetrar á Alþingi þann 11. september sl. vil ég nota hér tækifærið og minnast á mikilvægustu einingu samfélagsins, fjölskylduna.
Ég hef lagt mikla áherslu á að bæta aðstæður fjölskyldna á sem flestum sviðum og hef ég beitt mér fyrir að finna leiðir til að bregðast við þeim ábendingum sem hafa komið fram í því sambandi.
Verkefni fjölskyldunnar hafa breyst mikið frá því sem áður var samfara breyttum lífsháttum, ekki síst á síðustu árum, en umönnun og uppeldi barna er þó enn í dag mikilvægasta verkefni hverrar fjölskyldu.
Rannsóknir sýna okkur að lífskjör barna á Íslandi er almennt góð í samanburði við önnur Evrópulönd en hvert barn sem býr við fátækt er einu barni of mikið. Brýnasta verkefnið er að skoða lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra þar sem fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra.
Í ráðuneytinu stendur yfir umfangsmikil vinna við kortlagningu á stöðu fjölskyldna sem búa við fátækt og hvaða aðgerðir séu árangursríkastar til að mæta þörfum þeirra sem þurfa aukinn stuðning.
Ísland á að vera land tækifæranna fyrir öll börn og til að svo megi verða þarf að huga sérstaklega að þeim sem eru í viðkvæmasta hópnum.
Meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin skuldbatt sig til að koma í framkvæmd til að liðka fyrir gerð kjarasamninga síðastliðið vor var lenging á rétti foreldra til fæðingarorlofs. Að mínu mati er þetta risastórt skref í því skyni að bæta aðstæður barna og fjölskyldna þeirra hér á andi.
Mér er það því sönn ánægja að geta upplýst ykkur um að ég kem til með að leggja fram frumvarp nú á haustþingi þar sem lögð verður til lenging á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf mánuði. Gert er ráð fyrir að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum og taki að fullu gildi fyrir foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. janúar 2021 eða síðar.
Í tilefni af því að árið 2020 verða liðin 20 ár frá gildistöku laga um fæðingar- og foreldraorlof hef ég jafnframt skipað starfshóp sem ég hef falið það verkefnið að taka lögin til heildarendurskoðunar.
Í þeirri endurskoðun liggja fjölmörg tækifæri til að gera lagfæringar á lögunum, meðal annars í ljósi álita frá umboðsmanni Alþingis á undanförnum árum, en gert er ráð fyrir að vinnunni verði lokið haustið 2020 svo hægt verði að leggja fram frumvarp á haustþingi það ár.
Þá hef ég skipað annan hóp til að skoða aðstæður kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar á fæðingarþjónustu á landsvísu, en báðir þessir hópar hafa þegar hafið störf.
Samhliða vinnu við endurskoðun laganna um fæðingar- og foreldraorlof stefni ég að því að hefja formlegt samtal við sveitarfélögin um að unnið verði að því að tryggja að börnum bjóðist dvöl á leikskóla við tólf mánaða aldur. Í mínum huga er mikilvægt að ná lendingu í þeirri vinnu sem allra fyrst þannig að lengri réttur foreldra til fæðingarorlofs nýtist til fulls við það að brúa bilið á milli fæðingarorlofs foreldra og leikskólagöngu barna.
Húsnæðismál voru einnig mjög áberandi meðal aðgerða ríkisstjórnarinnar í tengslum við lífskjarasamningana síðastliðið vor enda ráðast lífskjör fólks ekki síst af því hvað fólk ver miklum hluta af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði fyrir sig og sína.
Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur markvisst beitt sér fyrir umbótum í húsnæðismálum og er nú í félagsmálaráðuneytinu unnið að margvíslegum aðgerðum sem styðja eiga við þau markmið .
Tímans vegna get ég ekki haft langt mál um þær allar en það sem helst ber að nefna er að veitt verða stofnframlög til 1.800 nýrra almennra íbúða til viðbótar því sem áður hafði verið áætlað. Þá stefni ég að því að leggja fram frumvarp sem felur í sér breytingar á tekju og eignamörkum þannig að fleiri landsmenn eigi kost á almennum íbúðum en nú er, auk þess sem tekjulágum á vinnumarkaði verður tryggður forgangur að hluta þessara íbúða.
Það gleður mig einnig að upplýsa að unnið er að útfærslu hugmynda um sérstök lán fyrir fyrstu kaupendur til þess að lækka þröskuld ungra og tekjulágra inn á fasteignamarkað en það er einmitt eitt af lykilverkefnum í yfirlýsingu stjórnvalda um stuðning við lífskjarasamningana. Jafnframt stefni ég að því að leggja fram frumvarp sem felur í sér breytingar á húsaleigulögum til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.
Það er einnig gaman að geta sagt frá því að fyrirhuguð er heildarendurskoðun á lögum sem snúa að skipulags og byggingarmálum. Ég hef þegar lagt fram í ríkisstjórn frumvarp um sameiningu Mannvirkjastofnunar og tiltekins hluta Íbúðalánasjóðs en sú sameining er hugsað sem liður í einföldun og eflingu stjórnsýslu á sviði húsnæðis og byggingarmála.
Ég er sannfærður um að öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, sé ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Ég er því gríðarlega stoltur af þeirri yfirgripsmiklu vinnu sem nú er unnin í félagsmálaráðuneytinu og er fullur bjartsýni um að okkur muni takast að efla hér húsnæðismarkaðinn enn frekar.
Góð gestir
Ýmislegt bendir til að það muni eitthvað hægjast á hagkerfinu á komandi misserum og að atvinnuleysi muni jafnframt aukast. Árið 2018 var skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun að jafnaði 2,4% en það hefur farið stígandi allt árið 2019 og má gera ráð fyrir að það nái 4% núna í desember.
Ekki má heldur gleyma því að vinnumarkaðurinn hefur orðið fyrir áföllum á árinu en í því sambandi má nefna að Vinnumálastofnun hafa borist um það bil 17 tilkynningar um hópuppsagnir það sem af er árinu þar sem alls 941 starfsmanni hefur verið sagt upp störfum. Þá hafði gjaldþrot WOW Air óneitanlega víðtæk áhrif á innlendan vinnumarkað, bæði bein og óbein.
Við þessar aðstæður er margs að gæta en einnig til mikils að vinna og berum við öll ábyrgð í þeim efnum sama hvar við borðið við sitjum.
Hér verðum við að passa að þeir sem missa vinnuna festist ekki í langtímaatvinnuleysi en ljóst er að eftir því sem lengri tími líður frá því að fólk missir vinnuna verður erfiðara fyrir það að ná fótfestu að nýju á vinnumarkaði.
Við verðum að bregðast við þessu aukna atvinnuleysi með einhverjum hætti og leggja aukna áherslu á að fækka þeim einstaklingum sem standa of lengi utan vinnumarkaðar, enda er það hagur allra að sem flestir séu virkir á vinnumarkaði.
Það er því að mínu mati gríðarlega mikilvægt að eiga samtal og samstarf við atvinnulífið um starfstækifæri fyrir langtímaatvinnuleitendur og einnig fyrir fólk með skerta starfsgetu og að ráðist verði í aðgerðir sem stuðla að þátttöku einstaklinga á vinnumarkaði miðað við starfsgetu hvers og eins í því skyni að sporna gegn langvarandi óvirkni.
Til að þetta geti orðið að veruleika verður atvinnulífið að skoða sinn þátt í að opna vinnumarkaðinn fyrir fólki sem einhverra hluta vegna hefur skerta starfsgetu en hafa ber í huga að þessi hópur er langt frá því að vera einsleitur. Ég er vel meðvitaður um að við getum ekki kallað eftir atvinnuþátttöku fólks sem hefur skerta starfsgetu séu hlutastörf og önnur sveigjanleg störf ekki til staðar á vinnumarkaði og mun ég því leggja mitt að mörkum til að tryggja möguleika fólks sem hefur skerta starfsgetu til að ráða sig í slík störf.
Ég tel einnig rétt að nefna hér sérstaklega að ég hef áhyggjur af þeim ungmennum sem hvorki eru í námi eða starfi, sérstaklega í hinum dreifðari byggðum, en komið hefur fram í könnunum að ungmenni sem eru hvorki í námi né starfi séu hlutfallslega fleiri í dreifbýli en þéttbýli. Hér þarf að grípa í taumana og leita nýrra leiða svo hægt sé að styðja betur við börn og ungmenni í áhættuhópum, óháð búsetu. Einnig þarf að efla þjónustu sem styður ungt fólk til náms, þátttöku á vinnumarkaði eða annarrar virkni.
Tækifæri til að mæta þessum áskorunum felast meðal annars í aukinni áherslu á snemmtæka íhlutun og samstarfi ólíkra þjónustukerfa. Við þurfum að veita heildstæða og einstaklingsmiðaða þjónustu og um leið fyrirbyggja að fólk falli á milli kerfa.
Á þetta er lögð mikil áhersla í þeirri umfangsmiklu vinnu sem hefur verið í gangi í ráðuneyti mínu varðandi mögulegar leiðir til að styðja þá til virkni sem ekki ná því af sjálfsdáðum og til að efla stuðningsúrræði fyrir fólk með skerta starfsgetu í tengslum við þátttöku þess á vinnumarkaði. Í þeirri vinnu er gríðarlega mikilvægt að eiga gott samstarf við fulltrúa ykkar hér í verkalýðshreyfingunni.
Snemmtæk íhlutun og samstarf ólíkra þjónustukerfa eru einnig áherslur stýrihóps stjórnarráðsins í málefnum barna, en þar sitja fulltrúar fimm ráðherra auk fulltrúa forsætisráðherra og er starfið leitt af félagsmálaráðuneytinu. Hópurinn vinnur að heildarendurskoðun í málefnum barna og er markmið vinnunnar að tryggja að börn verði sett í öndvegi í allri nálgun auk þess að tryggja snemmtæka íhlutun og samfellu í þjónustu.
Góðir gestir
Meðal þess sem kemur til með að vera rætt hér á þessu þingi eru málefni aldraðra Þó um sé að ræða hóp sem er alls ekki einsleitur þá erum við að tala hér um einstaklinga sem gjarnan standa höllum fæti í samfélaginu þrátt fyrir að það sé þó ekki algilt sem betur fer.
Árið 2018 skipaði ég starfshóp um kjör aldraðra sem skilaði skýrslu í desember sama ár þar sem fram komu tillögur um hvernig bæta mætti kjör aldraðra sem búa við lökustu kjörin í þjóðfélaginu. Á grunni þeirra tillagna geri ég ráð fyrir að leggja fram frumvarp um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða en markmiðið er að bæta hag þeirra sem eru 67 ára og eldri og hafa áunnið sér lítil sem engin lífeyrisréttindi á Íslandi og hafa litlar sem engar aðrar tekjur en greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sér til framfærslu.
Þá stefni ég einnig að því að leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar með það að markmiði að auka möguleika á sveigjanlegum starfslokum þannig að öldruðum verði gert kleift að vinna lengur og þar með auka atvinnutengd lífeyrisréttindi sín og séreignarlífeyrissparnað.
Við verðum að bregðast við yfirvofandi fjölgun í elstu aldurshópunum og breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Meðal annars þarf að tryggja mönnun starfa innan öldrunargeirans og líta til þess að gera þjónustu við aldraða sveigjanlegri og persónumiðaðri en hún er í dag, helst í nærumhverfi.
Góð heilsa er forsenda fyrir virkni aldraðra bæði á vinnumarkaði og í annarri þjóðfélagsþátttöku. Er mikilvægt að vinna markvisst að því að auka virkni og þátttöku aldraðra í eflingu eigin heilbrigðis og hvetja fólk til að undirbúa í tíma félagslega virkni eftirlaunaáranna. Sveitarfélögin hafa það hlutverk að tryggja öldruðum aðgang að félags- og tómstundastarfi og víða um land er öflugt starf unnið með tilliti til þess og áhersla á heilsurækt hefur aukist verulega undanfarin ár.
Nýting ýmiss konar tæknilausna við framkvæmd þjónustu við aldraða, meðal annars til að viðhalda og auka færni þeirra, getur aukið líkur á því að þeir geti búið lengur við öryggi heima fyrir og þurfi síður að dvelja á hjúkrunarheimilum. Rannsóknir hafa sýnt að tölvu- og netnotkun aldraðra fer vaxandi, ör þróun hefur verið á velferðartæknilausnum og ljóst að það eru miklir möguleikar á að nýta tæknilausnir meira við framkvæmd þjónustu við aldraða. Með hliðsjón af framangreindu hef ég skipað starfshóp sem ætlað er að fjalla um málefni aldraðra á breiðum grundvelli.
Að lokum vil ég geta þess að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur lagt ríka áherslu á samvinnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Ég sjálfur hef átt gott samstarf við verkalýðshreyfinguna um ýmis mál, svo sem um róttækari nálgun í húsnæðismálum og ýmsar breytingar í velferðar- og vinnumálum sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á. Ég tel mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut.
Um leið og ég lýk máli mínu vil ég óska nýrri og öflugri forystu Starfsgreinasambandsins, sem þið munum kjósa ykkur hér í dag, velfarnaðar í störfum sínum.