Ávarp 2. varaforseta ASÍ á þingi SGS

Ávarp Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, 2. varaforseta ASÍ á þingi SGS

Ráðherra, kæru félagar,

Til hamingju með daginn. Þetta er sennilega í fyrsta skipti sem mér hlotnast sá heiður að mæta á þing SGS. Þið vilduð fá forseta okkar hingað í dag en þar sem hún er veik þá verðið þið að láta ykkur það lynda að fá 2. varaforseta. Ég veit að það er ekki alveg það sama fyrir ykkur en ég er virkilega þakklátur fyrir að fá að vera hér með ykkur. Ég átti að skila kveðju frá Drífu, hún sendir ykkur baráttukveðjur.

En af okkar starfi innan ASÍ er þetta helst að frétta að við höfum átt annasamt ár frá því ný forysta var kjörin hjá ASÍ.  Á þessu fyrsta ári höfum við gengið frá kjarasamningum undir mjög krefjandi aðstæðum. Þó svo við höfum ekki gengið alla leið saman sem heild en líkt og svo oft áður þá getum við tekist á innbyrðis en staðið þétt saman sem ein heild út á við.

Okkur hefur tekist að ná miklum árangri í samstarfi við stjórnvöld. Kröfur um bætta stöðu á húsnæðismarkaði. Veruleg takmörkun á hinum svokölluðu Íslandslánum er í farvatninu þó svo margir vilji ganga lengra en gleymum því ekki að gríðarlega mikilvægt er að takmarkanir á lánum útiloki ekki veikasta hópinn frá húsnæðismarkaði. Við viljum ekki ýta veikasta hópnum sem mögulega gæti tryggt sér öruggt húsnæði með slíkum lánum yfir á ótraustan leigumarkað. Því er mikil vinna búin að fara í að skoða nýjar leiðir til fjármögnunar fasteigna sem og að byggja upp Bjarg íbúðafélag sem áætlar að afhenda yfir 140 íbúðir á þessu ári. Vegna aðgerða okkar má jafnframt sjá jákvæðar breytingar á almennum leigumarkaði. En betur má ef duga skal.

Við fórum fram með tillögur um að gera nokkuð róttækar breytingar á skattkerfinu, lögðum til að fjölga skattþrepum og lækka skatta á tekjulægsta hópinn og á sama tíma hlífa millitekjuhópnum. Þetta tókst, að mestu leyti. Við hefðum þó viljað sjá sanngjarna hækkun á sköttum á ofurlaun, hækka fjármagnstekjuskatt og margt fleira.

Við erum enn úti í miðri á í eftirfylgni með kjarasamningum ekki bara gagnvart ríkisstjórn því við eigum ýmislegt óunnið í kjaramálum gagnvart SA. Baráttan gegn brotastarfsemi og launaþjófnaði á vinnumarkaði heldur áfram. Eitt okkar stærsta og mikilvægasta verkefni er að ná að byggja upp heilbrigðan vinnumarkað. Þar sem brotastarfsemi er stöðvuð og félagsleg undirboð heyra sögunni til. Endurskoðun kjarasamninganna fer svo fram í september á næsta ári og þá er eins gott að loforðin verði komin til framkvæmda hjá ríkisstjórninni.

Við sjáum nú þegar að stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa lækkað nokkuð verulega frá því í vor. Lækkun upp á 1,25% hefur skilað sér og nú þurfum við að sjá það haldast út samningstímann og vonandi enn meiri lækkun. Það er hins vegar algjörlega óþolandi að bankar hafa ekki skilað þessum lækkunum til neytenda. Bankar hafa verið að hækka vaxtastig á lánum. Nú er það orðið svo að við þurfum að taka af skarið og stofna banka eða þá að fjárfesta í banka þar sem við gætum tryggt stöðu og betri kjör fyrir okkar fólk!

Við eigum eftir að fylgjast vel með því hvort kaupmáttur launa aukist áfram en sá mælikvarði er ein af þeim forsendum sem kjarasamningarnir hvíla á. Eins og staðan er í dag þá hefur kaupmáttur aukist en það þarf ekki mikið gerast á vinnumarkaði til þess að það breytist. Árstaktur kaupmáttar hefur verið okkur mjög hagfelldur síðustu ár en nú erum við að sjá eina minnstu aukningu kaupmáttar síðustu ára. Við þurfum að horfa aftur til ársins 2013 til þess að sjá jafn litla aukningu á kaupmætti. Það má því með sanni segja að við séum að berjast við að halda í þá kaupmáttaraukningu sem okkur hefur tekist að ná á undanförnum fimm árum. Þeir kjarasamningar sem við höfum gert á undanförnum árum hafa skilað miklum ávinningi. Það er hins vegar þannig, þó svo við horfum í mælikvarða efnahagslífsins að raunveruleg staða einstaklinga sést ekki í hagtölum eða línuritum.

Brotastarfsemi á vinnumarkaði þar sem launaþjófnaður er á sumum sviðum stundaður grimmt. Verkalýðsfélögin eyða verulegum tíma í að innheimta laun þegar rangt er reiknað. Það sem við erum auk þess að upplifa, og ég þarf væntanlega ekki að segja ykkur það, er að framkoma sérstaklega gagnvart erlendu vinnuafli er alltof oft hræðileg. Betur má ef duga skal, við verðum að stöðva slíkan rekstur, þar sem brotið er á fólki. Í vinnustaðaeftirlitinu upplifa eftirlitsfulltrúar okkar þá miklu neyð sem starfsfólk býr við. Við erum að gera virkilega góða hluti með samstarfi okkar í eftirlitinu en við þurfum að efla þetta mikilvæga starf okkar. Það er mín skoðun að við þurfum að endurskoða fyrirkomulagið hjá okkur og samhæfa starfið enn frekar. Með heimsóknum á vinnustaði er okkur að takast að lyfta málum upp á yfirborðið. Með öflugu upplýsingaflæði hefur okkur tekist að beina athyglinni á  þennan svarta blett sem hvílir á íslenskum vinnumarkaði. Við samþykkjum ekki að brotið sé á okkar fólki. 

Í jafn ríku samfélagi og við búum í þá er auk þess óþolandi að vita til þess að okkur lánast ekki að standa nægilega vel við bakið á þeim sem höllustum fæti standa til dæmis þegar fólk hefur misst starfsgetuna. Staða öryrkja er ekki ásættanleg. Við sem samfélag getum gert betur fyrir þann hóp. Við þurfum að vinna að því að tryggja stöðu allra. Svo ekki sé talað um þann þjófnað sem ríkið stundar gagnvart ellilífeyrisþegum, þar sem TR hefur af fólki þeirra lífeyri með sérstaklega grimmum skerðingum sem vafi leikur á hvort það sé gert með löglegum hætti. Ég tel þetta klárt brot á lögum! Grái herinn mun láta á þetta reyna og stefnir í að málið komist í farveg fyrir áramót.

Ágætu félagar

Nú langar mig að opna líka á umræðu sem ég veit að Drífu er hugleikið og kom meðal annars fram í ræðu hennar á formannafundi ASÍ í síðustu viku. Það er skipulag hreyfingarinnar okkar. Hún hefur velt því upp hvernig við myndum byggja upp hreyfinguna í dag ef við værum að byrja með autt blað. Við erum mjög sterk hreyfing, það eru gríðarleg verðmæti í henni. Við byggjum flest öll félögin á virku samtali við félagsmenn, við búum við mikla nálægð við félagsmenn þar sem annars vegar staðarþekking, stuttar boðleiðir og möguleiki allra félagsmanna til að taka þátt í þessu starfi okkar. Ég get alveg upplýst það að í mínu umhverfi þá eru skoðanaskipti á félagsfundum mjög opin. Félagsmenn liggja sem betur fer ekki á skoðunum sínum. Þetta eru gríðarleg verðmæti fyrir okkur sem hreyfingu. En gætum við gert betur? Já lengi má gott bæta. Við ættum að gefa okkur tíma í að fara í að rýna stöðuna og uppbygginguna á næstunni. Skilin á milli almenna og opinbera markaðarins eru að minnka. Flæði starfsmanna á milli landssvæða hefur aukist. Umræða hefur verið um ávinnslu og flutning réttinda á milli félaga. Við þurfum að tryggja réttindi félagsmanna þrátt fyrir að þeir skipti um starfsvettvang eða flytji á milli svæða. Í þessu samhengi má velta því upp hvort styrkja mætti sjúkrasjóði með sameiningum þeirra.

Frá því RSÍ var stofnað fyrir 49 árum síðan höfum við rekið einn sjúkrasjóð fyrir alla okkar félagsmenn, sama í hvaða aðildarfélagi þau eru. Sömu réttindi fyrir alla. Við gengum reyndar lengra á þeim tíma því stofnaður var einn og sameiginlegur orlofssjóður auk þess einn sameiginlegur vinnudeilusjóður. Því mætti alveg velta því upp hvort ástæða sé til þess að landssamböndin skoði nánari útfærslur sem þessar. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvort þið innan SGS munið taka umræðu um þetta hér í dag og á morgun, ég hvet ykkur samt sem áður til þess að opna á umræðuna. Rétt er að geta þess að á formannafundi ASÍ var forseta teyminu falið að vinna áfram með hugmyndavinnu gagnvart ávinnslu og samræmingu réttinda á milli aðildarfélaga ASÍ. Það munum við vinna með fram að þingi ASÍ sem verður á næsta ári.

Það eru mjög margir málaflokkar sem við þurfum að snerta á en tími gefst því miður ekki til að fara yfir þá alla en mig langar samt sem áður að nefna mikilvægi þess að við tökum höndum saman innan ASÍ og gerum hvað við getum til að stuðla að auknu jafnrétti í okkar greinum. Ég veit að staðan er æði misjöfn innan okkar félaga. Ég kem úr hópi þar karlar eru um 90% félagsmanna. Við höfum samt sem áður stigið það skref að gera betur í þessum málaflokki. Við erum bakhjarl UN-Women á Íslandi og ætlum okkur að auka umræðu um jafnrétti, jafna stöðu kynjanna innan okkar raða, í stjórnum, á trúnaðarmannaráðstefnu og svo framvegis. Það sem við innan ASÍ þurfum að gera auk þess að vinna markvisst í þessum málaflokki er að auka umræðu og upplýsingar um hvernig við, félögin og trúnaðarmenn okkar eiga að vinna með mál sem tengjast kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

En að lokum þá þakka ég aftur fyrir þann heiður að fá að koma hingað. Gleymum því ekki að með samstöðu okkar er okkur allir vegir færir! Ég óska ykkur góðs þings, hreinskiptra og opinna umræðna.

Takk!