Á vef ASÍ má finna eftirfarandi frétt þar sem fjallað er um búferlaflutninga sem hafa verið í umræðunni síðustu misseri og ekki að ósekju þar sem sveiflur í flutningsjöfnuði, þ.e. fjölda aðfluttra umfram brottflutta, hafa verið miklar undanfarin ár. Í raun hafa sveiflur í búferlaflutningum undanfarin áratug verið þær mestu frá árinu 1961, eða svo langt aftur sem gögn Hagstofunnar ná og gildir þá einu um hvort skoðaður sé fjöldi einstaklinga eða hlutfall af mannfjölda. Auknar sveiflur í seinni tíð má m.a. rekja til aukins hreyfanleika vinnuafls um Evrópu þar sem aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu og síðar stækkun Evrópusambandsins til austurs hafa gert búferlaflutninga auðveldari.
Drifkraftar búferlaflutninga geta verið margvíslegir en gjarnan er mikil fylgni milli búferlaflutninga og efnahagslegra stærða á borð við atvinnuástands, hagvaxtar og verðbólgu. Einnig mætti telja upp fátækt, hungur og stríð sem sögulega hafa haft drifið búferlaflutninga og gera enn í dag t.d. Mið-Austurlöndum.
Sé flutningsjöfnuður skoðaður má sjá að búferlaflutningar íslenskra ríkisborgara skýra þróunina að langmestu leyti fram að aldamótum. Við aldamótin verður hins vegar sú breyting að umfang búferlaflutninga erlendra ríkisborgara fer vaxandi samhliða frjálsara flæði vinnuafls. Um leið urðu stærri sveiflur í búferlaflutningum sýnilegar. Þannig voru aðfluttir umfram brottflutta yfir fimm þúsund árið 2006 (1,75% af mannfjölda). Viðsnúningur varð við efnahagshrunið og náði brottflutningur hámarki árið 2009 þegar brottfluttir umfram aðflutta voru tæplega fimm þúsund.
Þessar sveiflur koma ekki á óvart í ljósi hinna efnahagslegu öfga sem birtust í íslensku hagkerfi á þessum tíma. Mikill skortur var á vinnuafli á árunum 2005-2007 og var eftirspurninni að stórum hluta mætt með innfluttu vinnuafli. Áhrif efnahagshrunsins komu svo hratt fram þegar umsvif minnkuðu við stór fjárfestingarverkefni og hrun varð í mannvirkjagerð. Eftir því sem lengra leið frá hruni var nokkuð um einstaklinga sem fluttust búferlum þrátt fyrir að vera í öruggri vinnu. Þeir voru í leit að bættum lífskjörum, meiri kaupmætti og efnahagslegum stöðugleika.
Á tímabilinu 2009-2012 voru að jafnaði yfir tvö þúsund brottfluttir umfram aðflutta á ári, eða sem jafngildir 0,5% af mannfjöldanum. Það gerir eftirhrunsárin að stærsta brottflutningstímabili á Íslandi þegar litið er til síðustu fimmtíu ára. Auknir búferlaflutningar urðu því til þess að ýta undir áhyggjur um að vel menntað fólk flytti af landi brott.
Sé sjónum beint sérstaklega að íslenskum ríkisborgurum eru þessar áhyggjur enn til staðar. Neikvæður flutningsjöfnuður er ekki óvenjulegur á Íslandi enda hefur fjöldi brottfluttra Íslendinga verið meiri en fjöldi aðfluttra nær allar götur frá 1961. Hversu mikið neikvæður hefur svo ráðist af efnahagslegum aðstæðum hverju sinni.
Frá árinu 1961 hafa verið átta tímabil þar sem brottflutningur á hverju ári hefur verið meiri en meðaltal áranna 1961-2015. Líkt og sést í ofangreindri töflu haldast brottflutningstímabil gjarnan í hendur við öfgar í efnahagslífi Íslendinga. Brotthvarf síldarinnar, mikil verðbólga og hátt atvinnuleysi hafa þannig haft áhrif á búferlaflutninga síðustu hálfrar aldar. Tímabilið 2014-2015 sker sig hins vegar úr, þar sem ekki eru fyrir hendi hefðbundnar efnahagslegar forsendur fyrir auknum brottflutningi, þ.e. fólk flutti burt þrátt fyrir efnahagslegan uppgang.
Þeir brottflutningar sem fylgdu í kjölfar hrunsins tóku enda 2013 þegar vinnumarkaður fór að rétta úr kútnum og störfum tók að fjölga. Uppgangur í ferðaþjónustu var þá orðinn megindrifkraftur í fjölgun starfa, bæði með beinum hætti ásamt fjölgun afleiddra starfa t.d. í verslun, veitingum, hótelbyggingum. Sú þróun hefur haldið áfram undanfarin tvö ár auk þess sem efnahagsleg skilyrði hafa batnað. Kaupmáttur hefur vaxið, verðbólga hefur lækkað og atvinnuhorfur eru góðar. Bætt efnahagsleg skilyrði hafa hinsvegar ekki dregið úr brottflutningi Íslendinga, heldur þvert á móti hefur hann aukist undanfarið.
Þróunin 2014-2015 er því óvenjuleg og vekur upp spurningar, þar sem brottflutningur Íslendinga eykst á sama tíma og vinnuaflseftirspurn kallar á fjölgun aðfluttra erlendra ríkisborgara. Slík þróun á sér fá fordæmi hér á landi.
Ein möguleg skýring á landflótta Íslendinga eru aðstæður á vinnumarkaði en einhæf fjölgun starfa undanfarin ár hefur ýtt undir misræmi framboðs og eftirspurnar vinnuafls. Þannig hefur fjölgun starfa undanfarin tvö ár að mestu leyti verið drifin áfram af uppgangi í mannaflsfrekum greinum á borð við ferðaþjónustu og tengdum störf. Þær greinar hafa hins vegar litla þörf fyrir menntað vinnuafl t.d. iðn-, tækni- eða háskólamenntað. Skýr merki um þessa þróun sjást í samsetningu atvinnulausra þar sem hlutfall háskólamenntaðra fer nú sífellt hækkandi.
Reynslan sýnir að hagvöxtur og jákvæð efnahagsleg skilyrði draga úr búferlaflutningum Íslendinga og því ekki ólíklegt að sú verði raunin á næstu árum miðað við núverandi horfur í hagkerfinu. Ef ástæða brottflutninga er hins vegar lítið framboð verðmætra starfa, ósamkeppnishæf lífskjör auk skorts á framtíðarsýn og tækifærum þá er það verulegt áhyggjuefni.