Áttatíu og fimm brautskráðust af ýmsum námsbrautum við hátíðlega athöfn í húsakynnum SÍMEY við Þórsstíg í gær. Þar á meðal brautskráðust fjórir fisktæknar frá Fisktækniskóla Íslands.
Við upphaf og lok athafnar spilaði og söng ungur og efnilegur tónlistarmaður, Anton Líni Hreiðarsson, eigin tónlist fyrir gesti.
Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólastjóri Fisktækniskóla Íslands, flutti ávarp og brautskráði fisktæknana fjóra. Einnig fluttu ávörp tveir brautskráningarnemar, Gísli Gunnar Oddgeirsson og Jóna Sigurdís – Jódý.
Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY, sagði í brautskráningarræðu sinni að það gæti verið mikið átak að taka upp þráðinn og hefja nám eftir hlé, það krefðist dugnaðar og seiglu. Fólk þurfi að endurskipuleggja líf sitt, reyna á nýja færni og stundum yfirvinna huglæga þröskulda.
„Í umræðu dagsins eru menn sammála um að aðlögunarhæfni er mikilvægur eiginleiki á nútímavinnumarkaði. Fólk á öllum aldri þarf að takast á við ýmsar fyrirsjáanlegar og ófyrirsjáanlegar breytingar á náms- og starfsferli sínum. Rannsóknir benda til að þessi aðlögunarhæfni sé lykilhugtak og lykilþáttur í viðhorfi og hegðun einstaklinga í óvæntum aðstæðum og breytingum. Það eru líka fleiri færniþættir sem skipta máli og er innan framhaldsfræðslunnar kallað almenn starfshæfni, en það er sú grunnfærni sem einstaklingurinn þarf á að halda til að ná árangri á vinnumarkaði, aðlögunarhæfni er einn slíkur og fleiri má nefna eins og samvinnu, skilning á færnieflingu, jafréttisvitund, árangursrík samskipti, skipulag og áætlanir og fleiri. Skapandi hugsun, að geta leyst flókin verkefni og gagnrýnin hugsun hefur verið nefnd sterklega í þessu samhengi á þeim tímum sem við nú lifum,“ sagði Valgeir.
Hann nefndi að stöðugt væru í gangi breytingar á vinnumarkaði, störf hverfi og önnur taki við. Í því ljósi sé menntun afar mikilvægur þáttur.
„Tækifærin eru víða en vandamál munu skapast ef þróuninni er ekki fylgt vel eftir innan samfélaga, meðal annars með sí- og endurmenntun, hæfniuppbyggingu og öflugri náms- og starfsráðgjöf á vinnumarkaði. Ábyrgð á eigin starfsframa er mikilvægt atriði og einstaklingar á vinnumarkaði geta búist við því að þurfa að skipta oftar um störf í dag heldur en fyrir einhverjum árum eða áratugum, slíkt þarf ekki að vera núllpunktur í hverju tilviki heldur að einstaklingar þróist á milli starfa, þar kemur hverskyns nám og símenntun inn sem mikilvægur þáttur og líka raunfærnimat og hæfnigreiningar, að draga fram alla þá þekkingu sem við höfum áunnið okkur í lífi og starfi.Mikilvægt er í breytingum að finna jafnvægi í lífinu og gagnvart þeim ólíku verkefnum sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum gjarnan að geta stýrt tíma okkar á hagkvæman hátt en samt viðhaldið jafnvægi í samskiptum og athygli okkar á aðra í kringum okkur. Að finna okkar jafnvægispunkta er gulls í gildi. Að taka þátt í persónulegum breytingum á því ekki að valda streitu eða vanlíðan. Að upplifa umhverfi sitt breytast á ekki heldur að valda vanlíðan og upplifun þess að við stefnum að einhverri endastöð. Við eigum líka að vera sanngjörn við okkur og hrósa okkur fyrir árangur og skref sem tekin eru stór sem lítil,“ sagði Valgeir.
Sem fyrr segir brautskráðust 85 nemendur í gær. Þeir skiptast á eftirtaldar námsbrautir sem eru viðurkenndar af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins: Sölu-, markaðs og rekstrarnám, opna smiðju í málun, Help Start enskunám, stuðningsfulltrúabrú, Fræðslu í formi og lit og íslenskunám. Einnig voru útskrifaðir tólf nemendur af Alvöru bókhaldsnámskeiði og úr Íslensku sem annað mál. Einnig luku átta einstaklingar raunfærnimati í fisktækni, húsasmíði, matartækni og matreiðslu. Að ógleymdum fjórum fisktæknum sem brautskráðust frá Fisktækniskóla Íslands, sem fyrr segir. Námið hefur verið í samstarfi við SÍMEY. Þrír af þessum fjórum nemendum eru starfsmenn Útgerðarfélags Akureyringa. Segja þeir að námið hafi verið mjög gott og gagnlegt og það sé sérstaklega ánægjulegt að geta lokið því hér norðan heiða. Fisktæknarnir tóku bæði námskeið í SÍMEY og í Menntaskólanum á Tröllaskaga.