Atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir sextán aðildarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands hófst í morgun. Um er að ræða rafræna kosningu, sem lýkur á miðnætti 30. mars nk. Þeir sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins, þ.e. á almenna vinnumarkaðinum hafa rétt til að kjósa og fá bréf frá Starfsgreinasambandinu, þar sem gerð er grein fyrir kosningunni. Nauðsynlegt er að skoða gögnin vel og ef einhverjar spurningar vakna hafa samband við starfsfólk félagsins. Rúmlega 10.000 eru á kjörskrá, þar af 2.280 félagsmenn í Einingu-Iðju.
Gert er ráð fyrir að niðurstaðan liggi fyrir 31. mars, rúmri viku áður en aðgerðirnar eiga að hefjast.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, hvetur þá sem rétt hafa til að kjósa að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. „Samtök atvinnulífsins vilja ekkert við okkur tala og þess vegna var ákveðið að slíta viðræðum og boða til atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir. Vinnuveitendur halda fast við þá stefnu að laun almenns verkafólks hækki ekki um meira en 3-4%. Í krónum talið þýðir það hækkun grunnlauna um 6.000-9.500 kr. Slíkt er algerlega óviðunandi og var samninganefnd Starfsgreinasambandsins því knúin til að slíta viðræðunum og hefja undirbúning aðgerða. Komi til verkfallsaðgerða er ábyrgðin alfarið vinnuveitenda. Samstaða er okkar beittasta vopn og ég hvet alla sem eru með atkvæðisrétt til að kjósa. Fyrir samninganefndina er nauðsynlegt að baklandið sé traust.“
Skrifstofur Einingar-Iðju opnar lengur
Eins og fyrr segir verður kosið með rafrænum hætti.
Skrifstofur Einingar-Iðju verða því opnar lengur en venjulega, þar sem veittar verða upplýsingar um atkvæðagreiðsluna og fyrirhugaðar
verkfallsaðgerðir. Þeir félagsmenn sem hafa ekki aðgang að tölvu geta komið og kosið á skrofstofunum. Skrifstofurnar vera opnar eins og hér
segir:
Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en hefur ekki fengið send gögn er hægt að kæra sig inn. Viðkomandi þarf að hafa samband við Sigrúnu Lárusdóttir á skrifstofu félagsins á Akureyri. Hún sendir málið til kjörstjórnar sem mun taka afstöðu til þess.
Kæru félagar takið afstöðu með því að kjósa um verkfallsboðun. Launafólk í landinu þarf á ykkar kröftum að halda.