Í Vikudegi í dag má finna eftirfarandi grein eftir Björn Snæbjörnsson, formann félagsins, þar sem hann fjallar um niðurstöður launakönnunar félagsins. Könnunina í heild má finna hér.
Eining-Iðja hefur á undanförnum árum falið Gallup að kanna kjör félagsmanna og viðhorf þeirra til ýmissa þátta. Slíkar rannsóknir eru afar gagnlegar og getur félagið stuðst við niðurstöðurnar á mörgum sviðum til hagsbóta fyrir félagsmenn. Launakönnun Einingar-Iðju í ár var gerð í október og nóvember og voru svarendur 729, 45,2% karlar en 54,8% konur.
Dagvinnulaun hafa hækkað um 12%
Heildarlaun, miðað við fullt starf, voru 446.493 krónur hjá körlum en 358.937 hjá konum. Hjá körlum hækkuðu heildarlaunin um 9,1%, miðað við árið 2014, og 6,1% hjá konum.
Dagvinnulaun hækkuðu um 12% hjá báðum kynjum milli ára. Karlar voru með 327.235 krónur og konur 309.031. Ástæða hækkunarinnar má fyrst og fremst rekja til nýrra kjarasamninga.
Kynbundinn launamun verður að leiðrétta
Gallup hefur undanfarin ár kannað sérstaklega kynbundinn launamun á félagssvæði Einingar-Iðju. Núna mældust karlar með 8,8% hærri laun en konur miðað við dagvinnu, en kynbundinn launamunur er 11,5%. Þegar heildarlaunin eru skoðuð eru karlar með 24,1% hærri laun en konur. Kynbundinn launamunur er 13,9%.
Þetta eru tölur sem launafólk getur ekki sætt sig við. Kynbundinn launamunur á ekki að eiga sér stað og mun Eining-Iðja leita allra leiða til að leiðrétta þennan mun.
Afstaða til launa
Eins og við er að búast er afstaða fólks til launa mismunandi. Liðlega 30% svarenda sögðust vera mjög sátt eða frekar sátt við launin. Svipað hlutfall svaraði hvorki né.
27,7% svarenda sögðust frekar ósátt og 12,4% mjög ósátt. Hlutfallslega fleiri svarendur eru frekar sáttir við launin, miðað við sama tímabil í fyrra og færri segjast mjög ósáttir.
Launaseðillinn
Athyglisverðar niðurstöður koma í ljós þegar spurt er um launaseðilinn. Rúmlega helmingur fær seðilinn í heimabanka og um 20% í bréfpósti. Afleitt er að 7% segjast ekki fá launaseðil.
Liðlega helmingur segist alltaf skoða launaseðilinn og rúmlega 20% oftast. Um 20% segjast hins vegar sjaldan eða aldrei skoðað launaseðilinn. Kannski er eðlilega skýring á þessu, en ég hvet alla til að fylgjast vel með laununum sínum og geyma launaseðlana, því með þeim er hægt að sanna réttindi sín.
Húsnæðismál
Kostnaður vegna húsnæðis er einn stærsti útgjaldaliður fólks. Í launakönnun Einingar-Iðju kemur í ljós að 55,6% segjast búa í eigin húsnæði, miðað við 63,8% í fyrra. Hlutfall þeirra sem búa í leiguhúsnæði hefur á sama tíma hækkað, er nú 31,9%, miðað við 21,3% í fyrra. Forvitnilegt verður að sjá niðurstöðu næsta árs við þessari spurningu, enda var lögð rík áhersla á lausnir í húsnæðismálum við gerð síðustu kjarasamninga.
Þakkir
Ég vil þakka öllum þeim sem þátt tóku í launakönnun félagsins. Niðurstöðurnar koma að góðum notum við stefnumótun og ýmsa starfsemi Einingar-Iðju. Könnunin í heild verður innan tíðar birt á heimasíðu félagsins, www.ein.is.
Með félagskveðju
Björn Snæbjörnsson
formaður Einingar-Iðju