Átak gegn ólöglegri sjálfboðastarfsemi

Starfsgreinasamband Íslands er í átaki gegn ólöglegri sjálfboðastarfsemi og hefur í vikunni sent meira en 50 bréf til atvinnurekenda sem auglýsa eftir erlendum sjálfboðaliðum á til þess gerðum heimasíðum. Aðildarfélög Starfsgreinasambandsins um allt land hafa síðan fylgt því eftir með því að heimsækja viðkomandi atvinnurekanda eða hafa það í hyggju á næstunni.

Starfsgreinasambandið hefur einbeitt sér að atvinnurekendum sem reka gististaði og hótel, eru í annarri ferðaþjónustu eða óska eftir sjálfboðaliðum á lögbýli. Töluverð viðbrögð hafa verið við þessum bréfum, ýmist hafa atvinnurekendur dregið auglýsingar sínar til baka eða breytt þeim þannig að sjálfboðastörfin rúmist innan ramma laganna. Margir hafa hreinlega ekki gert sér grein fyrir að ólöglegt er að hafa sjálfboðaliða í efnahagslegri starfsemi og svo eru vissulega þeir sem þarf að grípa til frekari aðgerða gegn.

Starfsfólk Starfsgreinasambandsins mun halda áfram að fylgjast með atvinnurekendum sem auglýsa eftir sjálfboðaliðum og grípa til viðeigandi ráðstafana. Þá eru fjölskyldur sem auglýsa eftir sjálfboðaliðum hvattar til að hafa samband við stéttarfélagið á sínu svæði til að meta það í sameiningu hvort um ólöglegt athæfi er að ræða.