Á vef ASÍ segir að ASÍ fékk til umsagnar frumvarp félags- og jafnréttisráðherra um jafnlaunavottun sem byggir á kröfum jafnlaunastaðalsins.
Alþýðusamband Íslands hefur í áratugi barist fyrir jafnrétti og gegn kynbundnum launamun á vinnumarkaði. ASÍ fagnar því frumvarpinu og telur það mikilvægan áfanga í jafnréttisbaráttunni. Staðreyndir sýna að þrátt fyrir áratuga baráttu er kynbundinn launamunur staðreynd á íslenskum vinnumarkaði sem þarf að uppræta með öllum tiltækum ráðum.
Mikilvægt er að vel takist til við innleiðingu jafnlaunavottunarinnar og fagnar ASÍ því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að samtökum aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að semja svo um í kjarasamningum að við úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækis eða stofnunar þar sem 25-99 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli hafi fyrirtæki eða stofnun val um það hvort úttekt fari fram á grundvelli 1. gr. b staðalsins þar sem kveðið er á um að verði „leitað eftir staðfestingu á að kröfurnar séu uppfylltar hjá hagsmunaðilum, s.s. fulltrúum starfsmanna“, eða 1. gr. c staðalsins ÍST 85 þar sem kveðið er á um að „leitað eftir vottun þar til bærs aðila á jafnlaunakerfi sínu“.
Allir þeir sem þátt tóku í tilraunaverkefninu eru sammála um að innleiðing staðalsins er krefjandi og nokkur skuldbinding fyrir vinnustaðinn. En að sama skapi eru þeir einnig sammála um að ávinningurinn sé sannarlega þess virði, þ.e. gagnsætt og sanngjarnt launakerfi.