Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar mældist 1,9% atvinnuleysi í desember og var atvinnuleysiþví að meðaltali 4% á síðasta ári en 3% samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunnar. Samkvæmt mælingum beggja aðila hefur atvinnuleysi lækkað jafnt og þétt frá því að það var sem mest árið 2010. Samkvæmt VMST er atvinnuleysi nú svipað og það var 2004, áður en þensla fór að gera vart við sig á vinnumarkaði. Tölfræði VMST byggir á rétti til atvinnuleysisbóta á meðan mæling Hagstofunnar byggir á vinnumarkaðskönnun. Líkt og bent var á í Efnahagsyfirliti VR[2], þá geturatvinnuleysi að einhverju leyti verið falið þar sem til viðbótar við atvinnulausa má finna einstaklinga sem geta unnið en eru ekki að leita að atvinnu og einstaklinga sem eru í hlutastarfi og vilja vinna meira.
Af Norðurlöndunum mælist atvinnuleysi nú lægst á Íslandi sem bæði skýrist af lækkandi atvinnuleysi hérlendis en einnig sökum þess að atvinnuleysi í Noregi hefur aukist hratt í kjölfar minnkandi umsvifa í olíuiðnaði. Í Danmörku og Svíþjóð eru teikn á lofti um að atvinnulausum fari fækkandi samhliða aukinni vinnuaflseftirspurn. Aðstæður í Finnlandi eru aftur á móti erfiðar þar sem atvinnuleysi fer vaxandi samhliða lítilli fjölgun nýrra starfa.
Bati á vinnumarkaði hefur undanfarin ár ekki einungis birst í lægra atvinnuleysi heldur fyrst og fremst í mikilli fjölgun starfandi einstaklinga en á síðasta ári var fjöldi starfandi í fyrsta sinn meiri en fyrir hrun. Á síðasta ári og voru að jafnaði um 184 þúsund einstaklingar starfandi, þar af flestir í júní mánuði eða 196 þúsund. Milli ára fjölgar því starfandi um sex þúsund ásamt því að meðalvinnustundum fjölgar.
Atvinnuþátttaka hefur aukist hratt undanfarin misseri og skýrist sú þróun bæði af fækkun einstaklinga utan vinnumarkaðar en einnig af eðlilegri fjölgun á vinnumarkaði. Tölur yfir búferlaflutninga benda til þess að aukinni vinnuaflseftirspurn hafi verið mætt með innfluttu vinnuafli t.d. í mannvirkjagerð og ferðaþjónustu.
Allar líkur er á því að framhald verði á ofangreindri þróun þar sem aðaldrifkraftur verður áframhaldandi fjölgun ferðamanna og aukin innlend eftirspurn í náinni framtíð. Bættar aðstæður á vinnumarkaði eru vissulega jákvæð tíðindi en það birtast einnig nýjar áskoranir. Þörf er á fjölbreyttri fjölgun starfa til að laða heim brottflutta Íslendinga, koma í veg fyrir frekari brottflutning og draga úr langtímaatvinnuleysi. Aðlögun aðfluttra erlendra ríkisborgara er ekki síður mikilvæg en aukin spenna á vinnumarkaði eykur hættu á félagslegum undirboðum og mörg dæmi eru um að brotið sé á réttindum starfsmanna. Þar eru þeir sem nýir koma inn á vinnumarkað í áhættuhóp.