ASÍ-UNG ályktar

Á fundi ASÍ-UNG á föstudaginn voru samþykktar tvær ályktanir. Annars vegar fagnar ASÍ-UNG lengingu fæðingarorlofs og hins vegar fordæmir ASÍ-UNG skerðingu á félagslegum réttindum ungs fólks í Grikklandi.

ASÍ-UNG fagnar réttindaukningu til fæðingarorlofs 

Stjórn ASÍ-UNG fagnar lagafrumvarpi velferðarráðherra þess efnis að fæðingarorlofsréttur verði lengdur og greiðslur hækkaðar. En betur má ef duga skal og stjórn ASÍ-UNG vill minna á að fæðingarorlofsréttur á Íslandi standi enn að baki rétti foreldra  í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Stjórn ASÍ-UNG skorar því á þingmenn að bæta enn frekar í réttindin við þinglega meðferð frumvarpsins.

SÍ-UNG fordæmir skerðingu á félagslegum réttindum ungs fólks í Grikklandi
Í kjölfar hins alvarlega ástands sem upp er komið í Grikklandi hefur gríska ríkisstjórnin með fulltingi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, Framkvæmdastjórnar ESB og Seðlabanka Evrópu, skert kjör og félagsleg réttindi grískrar alþýðu verulega. Þá sérstaklega kjör og réttindi ungs fólks sem starfar hjá hinu opinbera. Í raun er skerðingin svo mikil að Evrópuráðið telur þær brjóta gegn Félagssáttmála Evrópu sem flest Evrópuríki hafa fullgilt sem öryggisnet fyrir lágmarksréttindi. 

Stjórn ASÍ-UNG sendir bræðrum og systrum sínum í Grikklandi baráttukveðjur og skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir því við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og ESB, að lágmarks félagsleg réttindi grískrar alþýðu skv. Félagssáttmála Evrópu, séu virt.  

Stjórn ASÍ-UNG
Reykjavík, 14.12.2012