ASÍ undrast fullyrðingar sviðsstjóra hjá RSK

Á síðustu vikum og mánuðum hefur Alþýðusambandinu og aðildarsamtökum þess borist upplýsingar um vaxandi fjölda erlendra fyrirtækja sem eru með tímabundna starfsemi hér á landi einkum í tengslum við mannvirkjagerð, en einnig aðra atvinnustarfsemi. Í mörgum tilfellum er um að ræða undirverktaka hjá íslenskum fyrirtækjum eða starfsmannaleigur. Komið hefur í ljós að þessari starfsemi fylgja vandamál er tengjast undirboðum á vinnumarkaði og jafnframt er það staðreynd að erlent launafólk sem starfar hjá þessum fyrirtækjum er berskjaldað fyrir svindli enda eðli málsins skv. með takmarkaða þekkingu á þeim réttindum sem því eru tryggð með kjarasamningum og lögum á íslenskum vinnumarkaði. Þá hefur komið fram að þessi fyrirtæki hafa ekki verið að greiða skatta og skyldur til íslensks samfélags. Á þessar staðreyndir hefur til dæmis formaður Framsýnar, stéttarfélags og og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar bent, varað við afleiðingunum og hvatt til þess að við þeim verði brugðist af festu.

Í hádegisfréttum RÚV laugardaginn 7. nóvember var haft eftir sviðsstjóri fyrirtækjaskrár RSK að ekkert bendi til þess að íslensk fyrirtæki reyni að komast hjá því að greiða skatta og gjöld með því að útvista verkefnum til erlendra fyrirtækja sem veita þjónustu tímabundið hér á landi. Jafnframt mátti skilja á sviðsstjóranum að lítið sé um erlend fyrirtæki með tímabundna starfsemi hér á landi. Alþýðusambandið er ósammála því sem fram kom í framangreindri frétt. Staðreyndirnar tala sínu máli. Jafnframt bendir ASÍ á mikilvægi þess að embætti RSK skoði málið nánar og taki ábendingar þeirra aðila alvarlega sem næst vinnumarkaðnum standa og búa yfir mikilvægum upplýsingum í þessum efnum.