ASÍ svarar fyrir sig vegna ummæla í fréttum RÚV

Á vef ASÍ segir að bæjarstjórinn í Kópavogi, sem jafnframt er formaður samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, lýsti í gær grundvallar skilningsleysi á nýja almenna íbúðakerfinu sem tryggja á tekjulágum fjölskyldum öruggt leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Ármann Kr. Ólafsson vændi ASÍ, í ummælum sínum í fréttum RÚV, um tvöfeldni þar sem samtökin fari fram á stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum til Bjargs íbúðafélags á sama tíma og þau sætu í stjórnum lífeyrissjóða sem fjárfesti í leigufélögum á markaði. Þess má geta að Bjarg íbúðafélag var stofnað fyrir tæpu ári af ASÍ og BSRB og er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

  • Í fyrsta lagi skal tekið fram að ASÍ á enga aðild að stjórnum lífeyrissjóða, þar sitja fulltrúar launafólks úr þeim stéttarfélögum sem aðild eiga að viðkomandi sjóði.
  • Í öðru lagi ætti formaðurinn að þekkja grundvallarlögmál frjáls markaðar betur en svo að setja fram fullyrðingar sem þessar. Lífeyrissjóðir veita einstaklingum og fyrirtækjum lán á markaðsforsendum með það markmið að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga sinna og tryggja þeim góðan lífeyri. Það er ekki þeirra að taka að sér hlutverk ríkisins við að tryggja öllum landsmönnum grundvallar velferð. Það er hluti af jöfnunarhlutverki hins opinbera og á að fjármagna í gegnum skattkerfið.

Eins og bæjarstjóranum ætti að vera kunnugt er staða tekjulágra heimila á húsnæðismarkaði óviðunandi og í aðgerðum stjórnvalda undanfarin ár hafa þau með öllu verið skilin eftir. Það er alþekkt að óheftur frjáls húsnæðismarkaður leysir ekki af sjálfsdáðum þennan vanda, síst af öllu í ástandi eins og nú þegar mikill skortur er á húsnæði.

  • Þess vegna hefur hið opinbera mikilvægu hlutverki að gegna við að styðja við uppbyggingu á húsnæði fyrir þessa hópa.
  • Þess vegna var á sínum tíma byggt hér upp öflugt verkamannabústaðakerfi með aðkomu hins opinbera.
  • Þess vegna hafa frændur okkar á Norðurlöndunum byggt upp almennt leiguíbúðakerfi sem tryggir húsnæðisöryggi og viðráðanlegan húsnæðiskostnað.
  • Þess vegna gerði ASÍ það að kröfu sinni í kjarasamningum að hið opinbera stigi inn og styddi við uppbyggingu á leiguhúsnæði í félögum sem hafa langtímamarkmið um rekstur án hagnaðarsjónarmiða. Fáir aðilar hafa litið á það sem hlutverk sitt að reka slík félög fyrir tekjulágt launafólki og alveg ljóst að hinn frjálsi markaður mun ekki niðurgreiða húsaleigu svo hún verði þessum hópum viðráðanleg.
  • Þess vegna stofnaði ASÍ á 100 ára afmæli sínu húsnæðisfélag ásamt félögum okkar í BSRB til að vinna að þessu markmiði og stuðla með því að félagslegu- og fjárhagslegu öryggi fjölskyldna.

Það væri því nær að bæjarstjórinn styddi ASÍ í viðleitni sinni til að gera úrbætur á þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í húsnæðismálum og kemur verst niður á ungu fólki og tekjulágum.