Efnahagslegar afleiðingar vegna Covid19 verða þungbærar og sennilega umfangsmeiri en fyrri efnahagshremmingar. Fyrirtæki og einstaklingar munu verða fyrir skakkaföllum, sem munu hafa keðjuverkandi áhrif og hafa afleiðingar inn í nánustu framtíð. Margir lenda í því þessa dagana að tekjur skerðast að miklu eða jafnvel öllu leyti. Óvíst er hvenær fólk fær tækifæri til að afla tekna til að standa undir sínum skuldbindingum aftur.
Skráning á vanskilaskrá hefur mikil íþyngjandi og langvarandi afleiðingar fyrir þann sem þar lendir. Þannig hefur Creditinfo-Lánstraust heimild til að halda fólki á vanskilaskrá í fjögur ár eftir að það gerir upp skuldir sínar. Á meðan er einstaklingum gert ókleift að stunda eðlileg viðskipti, svo sem fá greiðslukort, tryggingar eða jafnvel leiguhúsnæði. Það tímabundna áfall sem fólk verður fyrir um þessar mundir má ekki hafa langvarandi afleiðingar.
Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtökin krefjast þess að Creditinfo-Lánstraust hætti tafarlaust skráningum á vanskilaskrá sína vegna greiðsluvanda tengdum Covid19 og skrái engan á vanskilaskrá vegna þessa út árið 2020.