Oddvitar flokkanna sem sitja í bæjarstjórn Akureyrar og bæjarstjóri sátu í gær fund með Gylfa Arnbjörnssyni, formanni ASÍ, og fulltrúum stéttarfélaga í Eyjafirði, þeim Birni Snæbjörnssyni frá Einingu-Iðju, Örnu Jakobínu Björnsdóttur frá Kili, Eiði Stefánssyni frá Félagi verslunar- og skrifstofufólks, Konráð Alfreðssyni frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar, Heimi Kristinssyni frá Byggiðn félagi byggingamanna og Jóhanni Sigurðssyni frá Félagi málmiðnaðarmanna.
Fundurinn var haldinn í framhaldi af bókun bæjarráðs Akureyrarbæjar frá 17. mars sl. um að bæjarstjóra væri falið að kalla eftir viðræðum við forsvarsmenn ASÍ um möguleika á byggingu á ódýru leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga á Akureyri.
Gylfi sagði frá hugmyndum ASÍ um almennt íbúðafélag sem byggir á félagsauði en ritað hefur verið undir viljayfirlýsingu milli ASÍ og Reykjavíkurborgar um byggingu á 1.000 íbúðum á næstu fjórum árum. Sjá frétt á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Kanna á hvort grundvöllur sé fyrir slíku samstarfi á Akureyri.