ASÍ - Nýtt íbúðafélag mun starfa á landsvísu

Á vef ASÍ kemur fram að vegna fjölda fyrirspurna skal áréttað að fyrirhugað íbúðafélag, sem ASÍ kynnti á laugardag að yrði stofnað um leið og húsnæðisfrumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra verður samþykkt á Alþingi, mun starfa á landsvísu. Vissulega er húsnæðisvandinn mestur á höfuðborgarsvæðinu og því byrjað þar en hugmyndin var alltaf að fyrirhugað félag myndi byggja íbúðir víðar á landinu. 

ASÍ mun standa fyrir því að leggja íbúðafélaginu til nauðsynlegt stofnfé til að félagið sjálft geti orðið til og ekki þurfi að koma til þess að rukka væntanlega íbúa um slíkt stofnframlag. Jafnframt er ljóst að félagið mun verða rekið með tapi á meðan það er að standa fyrir framkvæmdum fyrstu árin, eða þar til leigutekjur eru orðnar af því umfangi að ráða við eigin rekstur og þar mun ASÍ leita til aðildarsamtaka sinna um að veita íbúðafélaginu víkjandi lán til fimm ára til að tryggja framgang verkefnisins. 

Allt byggir þetta hins vegar á væntanlegri löggjöf um almennar íbúðir, þar sem kveðið er á um að ríkið leggi fram 18% stofnstyrk og sveitarfélögin 12% stofnstyrk til að stuðla að lágri leigu, eða samtals 30% af stofnkostnaði íbúðanna. Verkalýðshreyfingin hefur ekki þá fjármuni að geta tekið þennan hluta að sér. Með þessu framlagi hins opinbera þarf félagið að fjármagna 70% byggingakostnaðar með húsnæðislánum sem leigan mun standa undir. Verði lagafrumvarpið afgreitt ætti húsaleiga að teknu tilliti til húsnæðisbóta að vera um 20% af tekjum þessara hópa. 

Aðgangur að þessu kerfi verður m.v. tekjur og í núverandi reglugerð um félagslegt íbúðarhúsnæði er miðað við neðri fjórðung tekna sem er 364 þús.kr.mán. hjá einhleypum og 565 þús.kr.mán. hjá hjónum með 1 barn. Ekki hafa enn sem komið er verið mótaðar reglur um úthlutun íbúða, en það verður kynnt síðar þegar lögin hafa verið afgreidd og ráðherra gefið út reglugerð um framkvæmd kerfisins.