ASÍ - Nýjar makatengingar í almannatryggingakerfinu

Alþýðusamband Ísland lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri mismunun milli hópa sem misræmi í hækkun bótaflokka almannatrygginga sl. tvö ár hefur valdið. Þeir lífeyrisþegar sem búa með öðrum hafa ekki fengið hækkanir til samræmis við þá sem búa einir. Fram til ársins 2016 voru hámarksgreiðslur til ellilífeyrisþega sem bjuggu með öðrum u.þ.b. 86% af greiðslum til þeirra sem bjuggu einir en þetta hlutfall fór niður í 81% árið 2017 og 80% árið 2018. Það má því segja að verið sé að innleiða nýjar makatengingar í kerfið og munurinn gæti aukist enn frekar á næstu árum.

Nýtt kerfi ellilífeyris almannatrygginga tók gildi í janúar 2017 og var kerfið einfaldað og réttindi í flestum tilvikum aukin. Við afgreiðslu frumvarpsins haustið 2016 lofuðu stjórnvöld að bregðast við þeirri réttmætu kröfu að hámarksgreiðslur almannatrygginga yrðu sambærilegar lágmarkslaunum. Það þýddi að hámarksgreiðslur almannatrygginga áttu að verða 280.000 kr. á mánuði árið 2017 og 300.000 kr. árið 2018.

Til að standa við þetta loforð brugðu stjórnvöld á það ráð að hækka fyrst og fremst greiðslur til þeirra lífeyrisþega sem búa einir. Í nýja kerfinu eru tveir bótaflokkar fyrir ellilífeyrisþega. Ellilífeyrir, sem allir í kerfinu fá, og heimilisuppbót sem þeir sem búa einir eiga rétt á. Ellilífeyririnn skerðist um 45% af tekjum en heimilisuppbótin um 56,9%. Heimilisuppbótin var hækkuð hlutfallslega mun meira en ellilífeyririnn sem veldur því að hlutfallið milli hópanna hefur raskast og þeir sem búa með öðrum hafa setið eftir.

Hámarksgreiðslur almannatrygginga á tímabilinu 2016-2018 hafa hækkað um 22% til þeirra sem búa einir en aðeins um 13% til þeirra sem búa með öðrum.

Ef sömu hlutföll hefðu verið látin halda sér milli hópanna tveggja, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, væru hámarksgreiðslur ellilífeyris tæplega 20.000 kr. hærri í dag eða 258.500 kr. á mánuði í stað 239.500 kr. Þeir sem búa einir fengju eftir sem áður 300.000 kr. á mánuði en tekjuskerðingar þeirra yrðu jafnframt minni því vægi heimilisuppbótarinnar yrði minna í heildargreiðslu, en hún skerðist meira vegna annarra tekna en ellilífeyririnn.

Þróunin er sú sama hjá örorkulífeyrisþegum þó staða þeirra sé jafnvel alvarlegri þar sem ekki hefur verið gerð samskonar kerfisbreyting á örorkulífeyri eins og á ellilífeyri. Örorkulífeyriskerfið er því mun flóknara kerfi með meiri skerðingum auk þess sem örorkulífeyrisþegar búa enn við það óréttlæti að hluti af greiðslum til þeirra sem minnst hafa koma úr bótaflokki sem skerðist 100% vegna annarra tekna. Hlutfall greiðslna úr þessum bótaflokki hjá örorkulífeyrisþegum sem búa einir hefur hækkað á síðustu tveimur árum og hlutfallslegar skerðingar vegna annarra tekna því aukist hjá þeim.

Sú þróun sem hér er lýst er í andstöðu við þá kerfisbreytingu á almannatryggingakerfinu sem ASÍ studdi. Stjórnvöld verða að tryggja að hækkun almannatrygginga leiði hvorki til mismununar eftir hjúskaparstöðu né hlutfallslega hærri tekjuskerðinga.