Undanfarna mánuði hefur ASÍ unnið að gerð nýrra fræðslumyndbanda sem eru einkum ætluð ungu fólki. Myndböndin hafa nú tekið á sig lokamynd og má nálgast á Netinu, nánar tiltekið á myndbandavefnum Youtube. Um er að ræða sex ný fræðslumyndbönd um ýmis kjara- og réttindamál. Í myndböndunum er t.a.m. fjallað um orlofsmál, ráðningarsamninga, vinnutíma og jafnaðarkaup.
Myndböndin eru stutt og hnitmiðuð og er boðskapnum komið á framfæri á eins skýran hátt og unnt er. Eins og áður sagði eru myndböndin aðallega ætluð ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðinum, en þó ætti fólk á öllum aldri að geta haft gagn og gaman af. Nú þegar hafa myndböndin verið prufukeyrð í nokkrum framhaldsskólum þar sem þau hafa fengið afar góð viðbrögð til þessa.