ASÍ kynnir útfærslu og kostnaðarmat á nýju félagslegu húsnæðiskerfi

ASÍ kynnti í dag útfærslur sínar og kostnaðarmat á nýju félagslegu húsnæðiskerfi. Nýtt félaglegt húsnæðiskerfi kemur m.a. til móts við þann hóp sem verður að stórum hluta út undan í skuldaleiðréttingum ríkisstjórnarinnar.

Stórir hópar í okkar samfélagi búa við óbærilega háan húsnæðiskostnað, þeir komast ekki inn á húsnæðismarkaðinn, hafa ekki aðgang að félagslega kerfi sveitarfélaganna og ráða ekki við markaðsleigu – ekkert kerfi er til sem grípur þennan hóp sem telur að stærstum hluta ungt fólk, aldraða og tekjulágar fjölskyldur. Þessi stóri hópur býr við óöryggi í húsnæðismálum sem við getum ekki sætt okkur við. ASÍ vill að brugðist verði við þessu ástandi. Miðað við reynslu Norðurlandabúa þyrfti 20% alls íbúðahúsnæðis að vera með stuðningi fyrir tekjulága einstaklinga, hlutfallið hér er nú um 5%. 

ASÍ telur mikilvægt að byggt verði á eftirfarandi grundvallaratriðum: 

  • Bygging og rekstur félagslega húsnæðiskerfisins verði í höndum húsnæðissamvinnufélaga (búseturéttarfélaga) sem löng hefð er fyrir í dönsku og íslensku       samfélagi. Það félagsform er ekki hagnaðardrifið (non profit), starfar í almannaþágu og tryggir aðkomu íbúa að eign málum (íbúalýðræði). 
  • Nýframkvæmdir og kaup verði fjármögnuð að mestu í gegnum almennhúsnæðislán . 
  • Stuðningur ríkis- og sveitarfélaga  miðar að því að gera leiguna viðráðanlega fyrir íbúa 
  • Kerfið er fjármagnað með: 

     2% framlagi frá íbúum sem endurgreiðist við flutning. Framlagið jafngildir í reynd um 3ja mánaða leigu.
     14% stofnframlagi sveitarfélaga, vaxtalaust lán (oft í formi lóða og gatnagerðargjalda). 
     84% almennt húsnæðislán á markaði, þar sem ríkið skuldbindur sig til að niðurgreiða vexti með sérstökum samningum.
     Sveitarfélagið ábyrgist þann hluta lánsins sem er umfram 65% af verðmæti húsnæðisins.

  • Kerfið verði í höndum sveitarfélaganna, þar sem stuðningur er háður því að viðkomandi sveitarfélag hafi samþykkt að markmið viðkomandi samvinnufélags samræmist og séu innan þess ramma sem dreginn er utan um húsnæðisaðstoð við íbúana. Ríkið gefur út heimildir fyrir tilteknum fjölda íbúða í viðkomandi sveitarfélagi og sé í framhaldinu skuldbundið til að taka þátt í greiðslu vaxta á líftíma þess láns sem aflað er. 
  • Breytt félagsleg staða íbúa mun ekki raska búseturétti eftir að þeir eru komnir inn í kerfið. Þegar haft er í huga að þetta er leigukerfi sem miðar við litlar, hóflegar íbúðir má ætla að fólk fari út úr kerfinu ef fjárhagur þess vænkast verulega.
  • Rekstrarkostnaður og eðlilegt framlag til viðhalds innheimtist með leigu.
  • Að lokinni uppgreiðslu lána er greiðslum íbúanna umfram annan rekstrarkostnað ráðstafað til viðhalds og endurnýjunar félaglegs húsnæðis og nýbygginga.

Hröð uppbygging á næstu árum er viðráðanleg fyrir fjárhag ríkis og sveitarfélaga
Alþýðusambandið hefur lagt mat á kostnað samfélagsins af uppbyggingu félagslega kerfisins m.v. þá forsendu að kerfið verði sjálfbært og nái því marki að tryggja að um fimmtungur íbúðahúsnæðis verði með opinberum stuðningi. Ef gengið er út frá ofangreindum forsendum og kerfið byggt upp tiltölulega hratt næstu fimm árin, með samtals 1000 íbúðum á ári og síðan 600 íbúðum eftir það má áætla hversu mikla fjármuni þurfi til að ná þessu marki. 
Framlag sveitarfélaganna verður mest fyrstu fimm árin eða sem nemur 2,8 milljörðum króna á ári, en lækkar síðan í 1,7 milljarð króna á sjötta ári og fer lækkandi eftir það. Þessi framlög eru aðallega í formi lóða og gatnagerðargjalda en ekki beinna fjárframlaga. Framlag ríkisins byrjar í tæplega 600 mill.kr. en vex í í 2,8 milljarða eftir fimm ár, 4 milljarða króna eftir 10 ár og nær hámarki í 6,3 milljörðum króna eftir 30 ár en fer síðan lækkandi. Á einni starfsævi nær kerfið að verða fjárhagslega sjálfbært og ná til fimmtungs alls íbúðahúsnæðis.


Fjármögnun og húsaleiga í nýju kerfi

Samkvæmt Fasteignaskrá Þjóðskrár má áætla kostnað af meðalíbúðinni í félagslega kerfinu.

Íbúðaverð

 

Hbsv.

L.byggð

Íbúðaverð m.v. markaðsverð

77,4 fm.

21.105.965

14.715.307

Stofnframlög sveitarfélaga

14%

2.954.835

2.060.143

Eigið framlag íbúanna

2%

422.119

294.306

Lán frá Húsnæðislánastofnun

84%

17.729.010

12.360.858

 

Greiðslubyrði

 

Hbsv.

L.byggð

Íbúagreiðsla, ígildi fjármagnskostnaðar

3,0%

52.765

36.788

Annar rekstrarkostnaður

3,0%

52.765

36.788

Leiga frá húsnæðissamvinnufélagi

 

105.530

73.577

Húsaleigubætur (hjón með 1 börn)

 

22.504

22.504

Nettó greiðsla íbúa

 

83.026

51.073

Afborgun og vextir láns

 

104.444

72.820


Kostnaðarlega er vel gerlegt fyrir Íslendinga að fara norrænu leiðina við að byggja upp sjálfbært félagslegt húsnæðiskerfi. Fjármögnun er vel viðráðanleg þar til kerfið verður sjálfbært. Ávinningurinn er betra samfélag þar sem tækifærin til mannsæmandi búsetu eru jöfnuð. Húsnæðiskostnaður verður viðráðanlegur fyrir tekjulágar fjölskyldur.Niðurstaða

Glærur með kynningu á nýja félagslega húsnæðikerfinu.

Ítarefni um nýtt félagslegt húsnæðiskerfi.