Á vef ASí kemur fram að ný ríkisstjórn hefur nú tekið við stjórnartaumunum og líkt og áður væntir forysta Alþýðusambandsins þess að eiga gott og árangursríkt samstarf við hana um kjör og velferð félagsmanna sinna. Ein fyrsta prófraun nýrra ríkisstjórnar verður að tryggja sátt á vinnumarkaði. Endurskoðun kjarasamninga launafólks á almennum vinnumarkaði stendur fyrir dyrum. Undir lok febrúarmánaðar mun liggja fyrir niðurstaða forsendunefndar og mat samningsaðila um framhaldið. Stjórnvöld hafa að miklu leyti í hendi sér hver niðurstaðan verður. Efndir á loforðum í húsnæðismálum og afstaða til úrskurða kjararáðs ráða þar miklu.
Tryggja átti framlög til uppbyggingar á 600 leiguíbúðum
Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana í maí 2015 á að tryggja árlega framlög til uppbyggingar á allt að 600 almennum leiguíbúðum fyrir tekjulægri heimili á árunum 2016-2019. Í fjárlögum ársins og fimm ára fjármálaáætlun til ársins 2021 er hins vegar aðeins gert ráð fyrir 1,5 milljarði króna til stofnframlaga til almennra íbúða. Það fjármagn dugar einungis fyrir stofnframlögum frá ríkinu til innan við 300 almennra íbúða á ári. Þannig er innbyggður forsendubrestur í fjárlögum og ríkisfjármálaáætlun til næstu ára upp á rúmar 300 íbúðir á ári. Fyrir liggur að ófremdarástand ríkir í húsnæðismálum tekjulægri félaga okkar og fjöldi fjölskyldna býr við mikið óöryggi og hefur óásættanlega háan húsnæðiskostnað. Frekari málamiðlanir varðandi þau áform verkalýðshreyfingarinnar að tryggja þessum hópum húsnæðisöryggi eru því ekki inn í myndinni.
Tug prósenta launahækkanir
Kjararáð úrskurðaði í haust hækkun á launum æðstu ráðamanna og þingmanna sem tryggja þessum hópum tug prósenta launahækkanir. Þingfararkaup alþingismanna hefur samkvæmt úrskurðum ráðsins hækkað síðastliðið hálft ár um 55%, laun ráðherra um 46% og laun forseta Íslands um 29%. Þessar hækkanir eru allt aðrar og miklu meiri en þær almennu launahækkanir sem samið hefur verið um á vinnumarkaði og ganga þvert gegn þeirri sameiginlegu launastefnu sem lá til grundvallar rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá október 2015. Miðstjórn Alþýðusambandsins hefur í ályktunum sínum áréttað að engin sátt muni verða um að tekjuhæstu hópar samfélagins fái sérstaka meðferð og deili ekki kjörum með almenningi í landinu. Félagsmenn muni einfaldlega ekki sætta sig við að hafa það hlutverk að skapa jarðveg fyrir stöðugleika og aukna verðmætasköpun með ábyrgum launahækkunum til þess eins að hátekjuhópar geti á einu bretti fengið hækkanir sem nema mánaðarlaunum margra félaga okkar. Ábyrgð nýkjörins Alþingis og nýrrar ríkisstjórnar er því mikil og mun móta verulega hvaða skref verða stigin á næstu vikum og mánuðum.
Í nýgerðum stjórnarsáttmála lýsir ríkisstjórnin yfir vilja sínum til að styðja við aðila vinnumarkaðarins í frekari umbótum á íslenska vinnumarkaðslíkaninu. Óljóst er hver afdrif þeirrar samræðu verða en ljóst má vera að viljinn til áframhaldandi samtals ræðst að miklu leyti af niðurstöðum stjórnvalda varðandi kjararáð en ekki síður af því hvernig og hvaða hagstjórnartækjum verði beitt. Upp er komin býsna hefðbundin staða í orðræðunni þar sem Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð hrópa á niðurskurð ríkisútgjalda og enn frekari skattalækkanir á sama tíma og almenningur kallar eftir endurreisn heilbrigðis- og velferðarkerfis. Óumdeilt er að fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2017 eru þensluhvetjandi, en þegar rýnt er í þróun tekna og útgjalda er alveg ljóst að þessi staða er tilkomin annars vegar vegna mjög þensluhvetjandi aðgerða á tekjuhlið fjárlaga á meðan ekki er veitt nauðsynlegu fé til þess að tryggja viðunandi ástand í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum. Nægir þar að nefna húsnæðismál og öldrunarþjónustu. Mikil lækkun skatta tekju- og efnameiri heimila og fyrirtækja, ásamt því sem miklum fjármunum var beint til þeirra efnameiri í gegnum skuldalækkunaraðgerðir fyrrverandi ríkisstjórnar, veldur aukinni þenslu í hagkerfinu á sama tíma og dregið er úr getu ríkisins til þess að standa undir viðunandi velferð. Hafi stjórnvöld og atvinnurekendur raunverulegan áhuga á því að þoka umræðu um nýtt vinnumarkaðslíkan áfram verður að eiga sér stað breyting á þessari forgangsröðun. Síðasta ríkisstjórn skildi eftir sig opna deilu við verkalýðshreyfinguna um nauðsynlegt jafnvægi milli félagslegs- og efnahagslegs stöðugleika. ASÍ og BSRB höfnuðu á þeim grunni að skipa fulltrúa í Þjóðahagsráð og situr þar því enginn fulltrúi launafólks. Ný ríkisstjórn getur stigið inn í þessa deilu með markvissum hætti og lagt upp í samtal við vinnumarkaðinn um breyttar áherslur í nýrri ríkisfjármálaáætlun, þar sem velferðin er sett í forgang. Alþýðusambandið er reiðubúið í slíkt samtal!