ASÍ hvetur Alþingi til athafna í húsnæðismálum

Alþingi hefur nú til meðferðar frumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra um brýnar úrbætur í húsnæðismálum tekjulægri heimila sem mörg búa við mikið óöryggi á húsnæðismarkaði og hafa húsnæðiskostnað sem er langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Þetta veldur fjölskyldum félagslegum og fjárhagslegum vanda sem er ólíðandi. Aukinn stuðningur við þennan hóp í gegnum uppbyggingu á nýju samfélagslegu leiguíbúðakerfi og upptöku á nýjum húsnæðisbótum til leigjenda eru nauðsynlegar aðgerðir sem þola ekki lengri bið. Með þeim verða stigin mikilvæg skref í að tryggja öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum fyrir stóran hóp. 

Húsnæðismál skipuðu veigamikinn þátt við gerð kjarasamninga síðastliðið vor enda um eitt brýnast kjara- og velferðarmál launafólks að ræða. Stjórnvöld hétu því þá að tryggja afgreiðslu frumvarpa um nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi og nýtt húsnæðisbótakerfi og hvetur Alþýðusambandið Alþingi nú til að afgreiða málin tafarlaust. 

Staðreyndirnar tala sínu máli um stöðu tekjulágra heimila á húsnæðismarkaði og knýjandi þörf á úrbótum.  

  • Tæplega fimmtungur leigjenda greiðir 40% eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði sem talinn er verulega íþyngjandi húsnæðiskostnaður og hefur sá hópur stækkað mjög undanfarin ár. 
  • Almennt er talið er ásættanlegt að 20-25% ráðstöfunartekna fari til öflunar á húsnæði.
  • Hlutfall þeirra sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað er mun lægra meðal húsnæðiseigenda eða um 6% og hefur farið lækkandi á liðnum árum. 
  • Tekjulægri heimili eru mun líklegri til að vera á leigumarkaði – árið 2014 bjuggu 37% fólks í lægsta tekjufimmtungi í leiguhúsnæði samanborið við 9% í efsta fimmtungi. 
  • Fjórðungur tekjulægsta hópsins hefur íþyngjandi húsnæðiskostnað.
  • Fjórðungur einhleypra og 18% einstæðra foreldra hafa íþyngjandi húsnæðiskostnað.
  • Tæplega 30% barna í fjölskyldum sem bjuggu í leiguhúsnæði árið 2013 bjuggu undir lágtekjumörkum. 
  • Hár húsnæðiskostnaður tekjulágra á leigumarkaði kemur illa niður á uppeldisskilyrðum barna. Ný skýrsla Unicef sýnir að börn þeirra sem eru á leigumarkaði búa við umtalsvert meiri skort á öllum sviðum en þau börn sem eiga foreldra í eigin húsnæði. 
  • Útreikningar ASÍ frá árinu 2014 sýna að samkvæmt opinberum tölum frá Þjóðskrá Íslands um húsaleigu úr þinglýstum leigusamningum á almennum leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu, má áætla að húsnæðiskostnaður heimila í neðsta tekjufjórðungi á almennum leigumarkaði sé 35-50% af ráðstöfunartekjum að teknu tilliti til núgildandi kerfis húsaleigubóta.  
  • Opinberar tölur um leiguverð á þinglýstum leigusamningum frá Þjóðskrá gefa ekki fullnægjandi upplýsingar um raunverulegt leiguverð á markaði, enda engin þinglýsingarkvöð á leigusamningum. Nýleg markaðskönnun hagdeildar ASÍ á almennum húsaleigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu sýnir að talsverður munur er á upplýsingum frá Þjóðskrá um leiguverð úr þinglýstum leigusamningum og raunverulegu leiguverði á markaði. Fyrir allar stærðir leiguhúsnæðis reyndist markaðsverð 20-30% hærra en meðalleiguverð sambærilegs húsnæðis samkvæmt tölum úr þinglýstum leigusamningum hjá Þjóðskrá.  
  • Í nýjustu launakönnun Flóabandalagsins, sem eru félög verkafólks á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík, eru meðallaun félagsmanna sem eru á leigumarkaði ríflega 357.000 kr. fyrir skatt sem gera um 262.500 kr. í útborguð laun. 
  • Miðað við þessar tekjur, dæmigerðs félagsmanns Flóabandalagsins sem býr á leigumarkaði, að viðbættum húsaleigubótum og barnabótum má sjá að húsnæðiskostnaður sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er hár fyrir allar heimilisgerðir og í flestum tilvikum mjög íþyngjandi. Sjá nánari útreikninga í töflum að neðan. 


    Húsnæðiskostnaður dæmigerðra félagsmanna Flóabandalagsins á leigumarkaði sem hlutfall af ráðstöfunartekjum

     

    Nýjar húsnæðisbætur – skref í átt að jafnræði í stuðningi við leigjendur og kaupendur

    Neðangreindar myndir sýna samanburð á núgildandi kerfi húsaleigubóta, nýju kerfi húsnæðisbóta skv. frumvarpi (407. mál á 145. þingi) og núgildandi vaxtabótakerfi eftir samanlögðum heimilistekjum fyrir nokkrar fjölskyldugerðir. Sýndur er útreikningur á nýju kerfi húsnæðisbóta eins ráðgert er að það verði á árinu 2016 þegar fyrsti áfangi tekur gildi (eitt frítekjumark) og á árinu 2017 þegar kerfið hefur verið innleitt að fullu (frítekjumark tekur mið af fjölskyldustærð). Gert er ráð fyrir að eigið fé leigjenda sé undir eignaskerðingarmörkum (7,1/6,5 millj.) Útreikningur vaxtabóta miðast við að viðkomandi heimili eigi rétt á hámarks vaxtabótum m.v. tekjur hverju sinni – þannig að eigið fé heimilis er undir skerðingarmörkum vaxtabótakerfisins (4/6,4 millj.) og vaxtagjöld jafn há eða hærri en hámark vaxtagjalda sem miðað er við. Tekjur og bótafjárhæðir eru á mánaðargrunni.