Húsnæðismál skipuðu veigamikinn þátt við gerð kjarasamninga síðastliðið vor enda um eitt brýnast kjara- og velferðarmál launafólks að ræða. Stjórnvöld hétu því þá að tryggja afgreiðslu frumvarpa um nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi og nýtt húsnæðisbótakerfi og hvetur Alþýðusambandið Alþingi nú til að afgreiða málin tafarlaust.
Staðreyndirnar tala sínu máli um stöðu tekjulágra heimila á húsnæðismarkaði og knýjandi þörf á úrbótum.
Nýjar húsnæðisbætur – skref í átt að jafnræði í stuðningi við leigjendur og kaupendur
Neðangreindar myndir sýna samanburð á núgildandi kerfi húsaleigubóta, nýju kerfi húsnæðisbóta skv. frumvarpi (407. mál á 145. þingi) og núgildandi vaxtabótakerfi eftir samanlögðum heimilistekjum fyrir nokkrar fjölskyldugerðir. Sýndur er útreikningur á nýju kerfi húsnæðisbóta eins ráðgert er að það verði á árinu 2016 þegar fyrsti áfangi tekur gildi (eitt frítekjumark) og á árinu 2017 þegar kerfið hefur verið innleitt að fullu (frítekjumark tekur mið af fjölskyldustærð). Gert er ráð fyrir að eigið fé leigjenda sé undir eignaskerðingarmörkum (7,1/6,5 millj.) Útreikningur vaxtabóta miðast við að viðkomandi heimili eigi rétt á hámarks vaxtabótum m.v. tekjur hverju sinni – þannig að eigið fé heimilis er undir skerðingarmörkum vaxtabótakerfisins (4/6,4 millj.) og vaxtagjöld jafn há eða hærri en hámark vaxtagjalda sem miðað er við. Tekjur og bótafjárhæðir eru á mánaðargrunni.