Á heimasíðu ASÍ segir að Samtök atvinnulífsins sæki fast á ríkisstjórnina að fá tryggingagjald lækkað enn frekar en gjaldið lækkaði um 0,5 prósentustig þann 1. júlí síðastliðinn. Alþýðusambandið lýsir sig mótfallið slíkum hugmyndum þar til Fæðingarorlofssjóður endurheimtir þær skerðingar sem hann varð fyrir árið 2014 en þá lækkuðu stjórnvöld það hlutfall sem sjóðurinn fékk af tryggingagjaldinu um tæpan helming. Endurreisn fæðingarorlofskerfisins og frekari framþróun þess verður að hafa forgang að mati ASÍ.
Þó ASÍ hefði gjarnan viljað hraða breytingum til að styrkja sjóðinn styður sambandið málamiðlun sem kemur fram í tillögum starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum og félagsmálaráðherra áformar að setja fram sem sína tillögu. Á þetta bæði við um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi, lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og skiptingu fæðingarorlofsins milli foreldra.
Í skýrslunni er lagt til að lenging fæðingarorlofsréttar hefjist 1. janúar 2019 og verði komin til fullra framkvæmda 1. janúar 2021. Þó ASÍ hefði viljað sjá lengingu fæðingarorlofsréttar koma mun fyrr til framkvæmda, styður það tillöguna á þeim forsendum að hún feli í sér raunhæfa aðlögun í framkvæmd.
Samkvæmt útreikningum ASÍ eiga tillögur starfshópsins, eins og þær eru lagðar fram í skýrslunni, að rúmast innan þess tryggingargjalds sem Fæðingarorlofssjóður fékk á árunum 2012-2013, þ.e. 1,28% af tryggingagjaldinu, og krefst þess að hækkun þess hafi forgang umfram lækkun tryggingagjaldsins.