ASÍ - Gjaldskrár leikskóla hækka enn eitt árið

Öll stærstu sveitarfélög landsins nema Mosfellsbær hafa hækkað leikskólagjaldskrár sínar frá því í upphafi árs 2017 að því er fram kemur í nýrri úttekt verðlagseftirlits ASÍ. Mesta hækkunin er í Reykjavík, sem rekja má til ríflega fjórðungs hækkunar á fæðisgjaldi. Gjald fyrir 8 tíma leikskólavistun með fæði er lægst á Seltjarnarnesi og í Reykjavík en hæst í Vestmannaeyjum og Garðabæ. 

Mikill verðmunur á almennri gjaldskrá
Mikill verðmunur er á hæstu og lægstu gjaldskrá sveitarfélagana fyrir 8 tíma vistun ásamt fæði. Hæsta gjaldið fyrir þessa þjónustu er 39.578 kr. í Vestmannaeyjum en lægst á 25.760 kr. á Seltjarnarnesi og er munurinn 13.818 kr. eða tæp 54%. 

Hlutfallslega var mesta hækkunin í Reykjavík 8,6% úr 25.280 kr í 27.447 kr eða um 2.167 kr. á mánuði, í Vestmannaeyjum var hækkunin 2,8% úr 36.260 kr. í 37.270 kr eða 1.010 kr. Hækkunin hjá Sveitafélaginu Árborg og Garðabæ var 2,4% og 2,3% á Akureyri. Önnur sveitarfélög hækkuðu gjaldskránna minna og var hækkun þeirra á bilinu 0,5% - 1,8%. Þegar könnunin var gerð hafði Mosfellsbær ekki sett fram nýja gjaldskrá fyrir árið 2017.

Níundi tíminn dýrari 
Hjá flestum sveitarfélögum er níundi tíminn með hærra tímagjald en hinir átta. Hæsta gjaldið fyrir 9. tímann er greitt í Kópavogi 13.698kr , Reykjavík 11.750kr og Vestmannaeyjum 10.130kr. Lægsta gjaldið er hjá Sveitarfélaginu Skagafirði 2.977kr og á Ísafirði 3.039kr. Akureyri er eina sveitarfélagið í samanburðinum sem býður ekki upp á vistun í níu klukkustundir.

Forgangshópar 
Rúmlega 75% verðmunur er á hæsta og lægsta mánaðargjaldi fyrir forgangshópa fyrir 8 tíma vistun ásamt fæði, en lægsta gjaldið fyrir þessa þjónustu greiða foreldrar í Reykjavík 17.527 kr. Hæsta gjaldið greiða foreldrar í Vestmannaeyjum 30.746 kr. sem er 12.764 kr. verðmunur.

Hlutfallslega hækkaði mánðargjald fyrir 8 tíma vistun meira hjá forgangshópum og skýrist það af hækkun á fæði, en afsláttur þessara hópa nær ekki til fæðis. Á milli ára hækkaði gjald fyrir 8 tíma vistun hlutfallslega mest í Reykjavík eða um 14,1%, úr 15.360 kr. í 17.527 kr. og í Sveitarfélaginu Árborg um 10,1%. Í Garðabæ, Sveitarfélaginu Skagafirði og í Borgarbyggð hækkaði gjaldið fyrir þessa þjónustu um 2 -3% prósent en um minna en 2% hjá öðrum sveitarfélögum í þessum samanburði.

Systkinaafsláttur er mjög misjafn milli sveitarfélaga, frá 25-75% fyrir annað barn og 50-100% fyrir það þriðja, en aðeins er veittur afsláttur af tímagjaldi en ekki fæði.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám leikskóla og fæðis hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins frá 1. janúar 2016 til 1. janúar 2017. Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.