Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf út skýrslu sína um horfur í íslenskum efnahagsmálum fyrr í sumar. Í skýrslunni er meðal annars vikið að stöðu á vinnumarkaði, þróun launa og framleiðni. Er þar meðal annars fullyrt að kjarasamningsgerð gæti dregið úr viðnámsþrótti vinnumarkaðar í samdrætti. Þar er vísað í að vöxtur raunlauna umfram framleiðni geti dregið úr samkeppnishæfni. Vísar sjóðurinn þar til þróunar kaupmáttar launa byggt á launavísitölu Hagstofunnar og framleiðni skilgreindri sem verg landsframleiðsla á hvern vinnandi einstakling.