ASÍ boðar til formannafundar til að ræða mögulega uppsögn samninga

Í samræmi við 40. gr. laga Alþýðusambandsins og samþykkt miðstjórnar þann 21. febrúar sl. er boðað til formannafundar aðildarfélaga ASÍ miðvikudaginn 28. febrúar kl. 11 á Hilton Reykjavík Nordica. Fundurinn er boðaður til að fjalla um þá stöðu sem er uppi í tengslum við endurskoðun kjarasamninga.

Á fundi samninganefndar ASÍ miðvikudaginn 21. febrúar sl. lagði forseti ASÍ til að boðað yrði til formannafundar þar sem endurskoðun kjarasamninga yrði bæði rædd og leidd til lykta með atkvæðagreiðslu. Í því felst markverð breyting á fyrrgreindu umboði samninganefndar ASÍ og óskaði forseti eftir því að fulltrúar í samninganefnd ASÍ leituðu heimilda hjá sínum samninganefndum að viðhafa þennan háttinn á í þetta sinn. Verði það samþykkt, en til þess þarf samþykki allra fulltrúa í samninganefndinni, verður á formannafundinum viðhöfð leynileg rafræn atkvæðagreiðsla um uppsögn kjarasamninga á grundvelli 2. mgr. 39.gr. laga ASÍ.

Til að mynda meirihluta um tillögu þarf bæði meirihluta þeirra fundarmanna sem fara með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa.