ASÍ: Aukin samkeppni í landbúnaði bætir hag neytenda

Alþýðusambandið hefur haldið uppi gagnrýni á búvörusamninga undanfarna mánuði. Gagnrýnin hefur bæði snúið að samráðsleysi við undirbúning búvörusamningana, langan gildistíma og því hvernig horft er framhjá hagsmunum neytenda og starfsfólks í greininni. Ljóst er að atvinnuveganefnd Alþingis tekur undir þessi sjónarmið miðað við þá umræðu sem fram hefur farið í fjölmiðlum undanfarna daga. Meirihluti atvinnuveganefndar hefur hug á að staðfesta fyrstu þrjú ár búvörusamninga og hefur kallað eftir þjóðarsamtali um landbúnað í kjölfarið með aðkomu verkalýðshreyfingarinnar. Nefndin hefur hins vegar á sama tíma lagt til að breyta fyrirkomulagi við úthlutun tollkvóta með þeim hætti að verulega dregur úr ávinningi neytenda af nýgerðum tollasamningi um gagnkvæma opnun markaða með landbúnaðarvörur við Evrópusambandið. Þetta er óásættanleg niðurstaða og getur ekki orði grundvöllur þeirrar þjóðarsáttar sem formaður atvinnuveganefndar talar fyrir.

Tollasamningurinn var gerður við Evrópusambandið á síðasta ári og á að taka gildi í byrjun þess næsta. Alþýðusambandið fagnar þeim samningum enda hefur ASÍ lengi kallað eftir lækkun tolla og má nefna að meginmarkmið búvörusamninga hafa um langt skeið verið að stuðningur við greinina eigi að stuðla að hagræðingu, aukinni samkeppni og lægra vöruverði til neytenda. Tímabært er að  samkeppni aukist með landbúnaðarvörur og að stjórnvöld móti sókndjarfa landbúnaðarstefna með það markmiði að auka framleiðslu, gæði og bæta hag neytenda, launafólks og bænda.

ASÍ telur að rétta leiðin sé að gera samninga um gagnkvæma opnun markaða en með tollasamningnum verða til tækifæri til aukins útflutnings innlendrar framleiðslu þar sem tollfrjáls kvóti verður til fyrir svínakjöt, alifuglakjöt, unnið lambakjöt og ost ásamt því að tollfrjáls kvóti fyrir skyr nærri tífaldast ásamt verulegri aukningu lambakjötskvóta á mörkuðum Evrópusambandsins. Að sama skapi aukast tollkvótar fyrir erlendar vörur hér á landi sem stuðla að samkeppni og hvetja framleiðendur til aukinnar hagræðingar í framleiðslu.  Þáverandi utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson sagði meðal annars, Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast“ og þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók í sama streng og sagði „Það er mjög ánægjulegt að hafa náð samningum um gagnkvæma niðurfellingu tolla sem mun hafa mjög jákvæðar áhrif fyrir neytendur og mikil sóknarfæri til aukins útflutnings“[1].

Reynslan hér á landi af tollabreytingum hefur verið jákvæð. Þar má nefna breytingar sem gerðar voru í garðyrkju þegar tollar voru felldir niður árið 2002 ásamt því að komið var á beingreiðslukerfi. Reynslan af breytingunum var jákvæð þar sem framleiðsla hefur aukist og verð til neytenda á gúrkum, papriku og tómötum lækkaði á bilinu 30-50%.

ASÍ telur mikilvægt að tollasamningur við ESB verði staðfestur af Alþingi og að tekin verði skref til að breyta fyrirkomulagi við úthlutun tollkvóta þannig að neytendur geti notið raunverulegs ábata af samningnum. Það skýtur verulega skökku við að meirihluti atvinnuveganefndar leggi til frekari hindranir sem myndu hafa þau áhrif að draga úr ábata neytenda af tollasamningnum og ekki forsenda fyrir þeirri þjóðarsátt sem nefndin boðar í landbúnaðarmálum. 

[1] Sjá nánar