Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs

Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit í gær, miðvikudaginn 3. maí. Mæting á fundinn var góð og fór hann vel fram. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf. 38 fulltrúar frá Einingu-Iðju áttu rétt á setu á fundinum þar sem Ágúst Torfi Hauksson, formaður stjórnar, fór yfir skýrslu stjórnar um starfsemi sjóðsins á árinu 2016. Þá fór Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, yfir ársreiknings sjóðsins og jafnframt gerði hann grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins sem tryggingastærðfræðingurinn Bjarni Guðmundsson hafði gert. Var ársreikningur sjóðsins samþykktur samhljóða að yfirferð lokinni. Einnig kynntu fjárfestingarstjóri Arne Vagn Olsen og áhættustjóri Jóna Finndís Jónsdóttir fjárfestingar- og áhættustefnu sjóðsins.

Ágúst Torfi  kom víða við er hann flutti skýrslu stjórnar. M.a. að árið 2016 hefði verið frekar erfitt rekstrarár fyrir Stapa lífeyrissjóð eins og fyrir aðra lífeyrissjóði landsins. „Það sem einkennir árið umfram annað er styrking gengisvísitölu um 15,6% auk þess sem innlend hlutabréf skiluðu lágri ávöxtun. Þar sem Stapi er með umtalsverðar eignir í erlendum myntum og í skráðum hlutafélögum á Íslandi hafði þetta mikil áhrif á ávöxtun eignasafns sjóðsins á árinu 2016. Nafnávöxtun sjóðsins í heild var 2,0% og hrein raunávöxtun var neikvæð um 0,1%.“

Ágúst Torfi minntist einnig á nýja réttindakerfið sem tekið var upp 1. janúar 2016. „Grundvallarmunur er á nýja kerfinu og hinu gamla, því í nýja kerfinu myndast réttindi í samræmi við ávöxtun eigna en ekki miðað við réttindatöflu sem byggði á áætlaðri 3,5% raunávöxtun eins og var í gamla kerfinu. Mikil vinna hefur farið í innleiðingu og upptöku hins nýja kerfis. Verkefnið var flókið og er sérstök ástæða til að þakka starfsfólki sjóðsins og samstarfsaðilum fyrir frábæra vinnu við að koma kerfinu á. Má segja að nú sé meginvinnan við þetta verkefni að baki og er ekki annað að sjá en að mjög vel hafi tekist til. Nýja kerfið á að tryggja mun betur en áður að jafnvægi sé á milli eigna og skuldbindinga sjóðsins á hverjum tíma.“

Hann sagði einnig frá því að miklar umræður hafi verið innan sjóðsins um sjóðfélagalán og fyrirkomulag þeirra. „Sjóðurinn hefur undanfarin ár veitt slík lán í samstarfi við lánastofnanir en með breytingum á markaði hafa þau lán verið tiltölulega óhagstæð síðustu misserin. Nú hefur stjórn sjóðsins tekið þá ákvörðun að frá og með miðju ári 2017 muni Stapi taka þessa lánveitingu til sín og hætta með útvistun til banka. Nú er unnið að því að semja lánareglur og búið er að ráða starfsmann til að sinna verkefninu. Með nýju fyrirkomulagi er þess vænst að sjóðfélagalánin verði samkeppnishæf við önnur húsnæðislán sem bjóðast.“

 

Tíu ár frá stofnun Stapa
Í marsmánuði 2017 voru 10 ár liðin frá því Stapi lífeyrissjóður varð til með sameiningu Lífeyrissjóðs Norðurlands og Lífeyrissjóðs Austurlands. Þann 9. mars árið 2007 var skrefið stigið formlega með ársfundum beggja sjóða sem haldnir voru í Mývatnssveit. Þar var staðfestur samrunasamningur stjórna sjóðanna sem gerður var í nóvember árið áður. Í millitíðinni hafði verið haldinn aukaaðalfundur í Lífeyrissjóði Norðurlands þar sem réttindaákvæði í samþykktum sjóðsins voru samræmd réttindaákvæðum Lífeyrissjóðs Austurlands. Með því varð leiðin að sameiningu sjóðanna greið og hlaut endanlegt samþykki með staðfestingu Fjármálaeftirlitsins í byrjun sumars 2007.

 

Ávöxtun
Eins og fram kom í skýrslu stjórnar var árið 2016 frekar erfitt rekstrarár fyrir Stapa lífeyrissjóð eins og fyrir aðra lífeyrissjóði landsins. Það sem einkennir árið umfram annað er styrking gengisvísitölu um 15,6% auk þess sem innlend hlutabréf skiluðu lágri ávöxtun. Um 19% eigna Stapa eru innlend hlutabréf og um 24% eignanna eru bundnar í erlendum myntum. Þetta gerir það að verkum að ávöxtun á árinu nær ekki settum markmiðum, nafnávöxtun tryggingadeildar var 2,0% og hrein raunávöxtun var neikvæð um 0,1%. Þróunin á innlendum skuldabréfamarkaði var hins vegar jákvæð og var ágæt ávöxtun á þeim hluta eignasafnsins. Söfn séreignardeildar voru sömuleiðis með laka ávöxtun, þannig var hrein raunávöxtun Innlána safnsins 2,6%, Varfærna safnsins 1,3% og Áræðna safnsins -0,2%.

Lök ávöxtun gerði það að verkum að tryggingafræðileg staða sjóðsins versnaði heldur á milli ára og var neikvæð um 4.692 millj. kr. í lok árs. Tryggingafræðileg staða var jákvæð um 0,4% árið 2015 en neikvæð um 1,5% árið 2016. Tryggingafræðilegt mat í lok árs 2016 er það fyrsta sem gert er miðað við nýtt réttindakerfi sjóðsins.

 

Þróun frá árslokum 2016 og óvissa í rekstri
Í ársskýrslu Stapa kemur fram að í byrjun árs 2017 var uppi töluverð óvissa um veigamikla þætti í efnahagslífinu sem nú hafa skýrst verulega. „Í fyrsta lagi hefur tekist að mynda nýja ríkisstjórn sem markað hefur efnahagsstefnu næstu missera og því ríkir nú meiri ró á fjármálamörkuðum en var í lok síðasta árs. Í öðru lagi hafa ASÍ og SA lýst því yfir að þau muni ekki nýta sér rétt til uppsagnar kjarasamninga sem skapast hafði vegna forsendubrests og má því gera ráð fyrir að í öllum meginatriðum muni ríkja friður á vinnumarkaði á komandi mánuðum. Í þriðja lagi hefur nú fjármagnshöftum verið að fullu aflétt hvað varðar fjárfestingar erlendis og hefur þar með mikilli óvissu verið eytt. Ofangreind atriði stuðla öll að meiri stöðugleika á fjármálamarkaði en fyrirséð var í upphafi árs.

Á fyrstu vikum ársins lækkaði gengi krónunnar nokkuð en sú lækkun kom hins vegar öll til baka næstu vikur á eftir. Í ljósi þess að höftum hefur nú verið aflétt án sýnilegra áfalla fyrir krónuna a.m.k. til að byrja með og þeirrar spár að erlendum ferðamönnum sem koma til landsins muni enn fjölga verulega, eða um allt að 30% á milli ára, er líklegt að við munum enn sjá fram á styrkingu krónunnar. Stapi mun því væntanlega fara hægt í að auka erlendar fjárfestingar þó það sé ótvírætt markmið þegar til lengri tíma er litið. Með afnámi fjármagnshafta var samhliða opnað fyrir möguleikann á vörnum gegn gjaldeyrissveiflum og er hugsanlegt að hægt verði að minnka gjaldeyrisáhættu sjóðsins með slíkum vörnum. Nokkur óvissa ríkir um verðþróun á innlendum hlutabréfamarkaði í ljósi nýfengis frelsis lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis. Einhver hætta er talin á að það geti leitt til offramboðs og lækkunar á hlutabréfaverði ef sjóðirnir losa fé til að færa til útlanda, en á móti kemur að sterkar vísbendingar eru um að erlendir fjárfestar séu að koma í auknum mæli inn á þann markað. Við höfum í upphafi árs séð miklar sveiflur í verði einstakra félaga á markaði og viðbúið er að svo verði áfram. Stapi hefur í fjárfestingastefnu sinni fyrir árið 2017 enn frekar takmarkað þá stöðu sem sjóðurinn er tilbúinn að taka í einstökum félögum. Þegar á líður árið má búast við að eignasamsetning sjóðsins breytist nokkuð og verði með meiri dreifingu áhættu vegna áforma um auknar fjárfestingar í fasteignum, erlendum eignum og sjóðfélagalánum.“