Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs

Fjölmennur ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn 21. maí sl. í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri. 33 fulltrúi frá Einingu-Iðju áttu rétt á setu á fundinum þar sem Björn Snæbjörnsson, formaður stjórnar, flutti skýrslu stjórnar. Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri skýrði ársreikning sjóðsins og Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur kynnti tryggingafræðilega úttekt sem hann gerði á sjóðnum. Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða að lokinni yfirferð Kára. Arne Vagn Olsen fjárfestingastjóri fór yfir fjárfestingarstefnu Stapa fyrir árið 2014 og Jóna Finndís Jónsdóttir, áhættustjóri sjóðsins, sagði frá markmiðum áhættustýringar sjóðsins. Í lok fundar kynnt Bjarni nýtt réttindakerfi sem hefur verið til skoðunar hjá sjóðnum um nokkurrt skeið.

Á árinu 2013 greiddu 18.705 sjóðfélagar hjá 2.668 launagreiðendum iðgjöld til Tryggingadeildar sjóðsins. Iðgjöld ársins námu alls 6.454 millj. kr. Iðgjöld til Tryggingadeildar voru 6.315 millj. kr. og hækkuðu um 6,6% frá fyrra ári en iðgjöld til Séreignardeildar lækkuðu um 10,6% milli ára og voru 139 millj. kr. Fjöldi virkra sjóðfélaga þ.e. sjóðfélaga sem að jafnaði greiða iðgjöld til sjóðsins með reglubundnum hætti í mánuði hverjum var 12.757 hjá Tryggingadeild og 751 hjá Séreignardeild.

Heildarlífeyrisgreiðslur Tryggingadeildar sjóðsins á árinu námu 3.671 millj. króna og hækkuðu um 7,3% frá fyrra ári. Ellilífeyrir nam 2.418 millj. kr. örorkulífeyrir nam 1.010 millj. kr., makalífeyrir nam 205 millj. kr. og barnalífeyrir 38 millj. kr. Þá námu lífeyrisgreiðslur úr Séreignardeild 232 millj. kr. Þar af var sérstök útborgun séreignar skv. lögum 113 millj. króna. Lífeyrisþegar í árslok voru 7.337.

Rekstrarkostnaður sjóðsins á árinu 2013 var 178 millj. kr. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eignum var 0,12%. Stöðugildi á árinu voru 12,4 og námu heildar launagreiðslur 113 millj. kr. á árinu.

Hrein eign Tryggingadeildar til greiðslu lífeyris nam 139.330 millj. króna og hækkaði um 9,1% frá fyrra ári. Nafnávöxtun deildarinnar var jákvæð um 6,8% og raunávöxtun 3,03%. Hrein eign Séreignardeildar var 4.172 millj. kr. og hækkaði um 4,3% frá fyrra ári. Séreignardeildin býður upp á þrjár ávöxtunarleiðir, Safn I, Safn II og Safn III og var hrein raunávöxtun leiðanna 4,3%, 4,1%, og 2,8% á árinu.

Tryggingafræðileg úttekt hefur verið gerð á stöðu Tryggingadeildar sjóðsins í árslok 2013. Tryggingafræðileg afkoma ársins var neikvæð um 2.174 millj. kr. og var tryggingafræðileg staða sjóðsins neikvæð í árslok um 11.408,2 millj. kr. eða 4,6%.
Líkt og undanfarin ár er Akureyrarkaupstaður stærsti launagreiðandi til sjóðsins með rétt um 319 milljónir króna í iðgjaldagreiðslur á árinu. Alls greiddu 2.668 launagreiðendur iðgjöld til sjóðsins á árinu 2013. Þar af greiddu 15 stærstu launagreiðendurnir sem svarar til 36% af iðgjöldum.

Nánar verður sagt frá fundinum í blaði félagsins sem kemur út í júní.