Fjölmennur ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn 16. maí sl. í Menningarhúsinu HOFI á Akureyri. 31 fulltrúi frá Einingu-Iðju áttu rétt á setu á fundinum þar sem Ágúst Torfi Hauksson, formaður stjórnar, flutti skýrslu stjórnar. Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri skýrði ársreikning sjóðsins og kynnti tryggingafræðilega úttekt sem Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur gerði á sjóðnum. Ársreikningurinn var samþykktur samhljóða að lokinni yfirferð Kára. Arne Vagn Olsen fjárfestingastjóri fór yfir fjárfestingarstefnu Stapa fyrir árið 2013 og ávöxtun sjóðsins 2012. Að lokum fór Jóna Finndís Jónsdóttir, áhættustjóri sjóðsins, yfir áhættustefnu Stapa.
Fjárfestingartekjur ársins námu ríflega 12 milljörðum króna. Nafnávöxtun sjóðsins árið 2012 nam 10,1% miðað
við 5,2% árið á undan. Raunávöxtun á sama tímabili nam 5,3% samanborið við 0,0% árið 2012. Afkoman, mæld sem
raunávöxtun, er sú besta frá árinu 2006. Nafnávöxtun á söfnum Séreignardeildar var á Safni I 8,8%, á Safni II 10,9% og
á Safni III 7,1%. Hrein eign til greiðslu lífeyris var í árslok 131,6 milljarðar króna, sem er hækkun um 14,5 milljarða á milli
ára.
Alls greiddu 18.505 sjóðfélagar iðgjöld til Tryggingadeildar sjóðsins á árinu 2012. Fjöldi virkra sjóðfélaga sem greiddi
iðgjöld í mánuði hverjum var 12.565. Iðgjöld ársins án tillits til framlags ríkisins til jöfnunar örorkubyrði, námu 5.913
milljónum kr. og hækkuðu um 7,3% frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur Tryggingadeildar námu alls 3.241 milljón króna og hækkuðu um
5,1% frá fyrra ári. Á árinu fékk sjóðurinn greiddar 316 milljónir króna frá ríkinu vegna jöfnunar á
örorkubyrði milli lífeyrissjóða og hækkaði framlagið um 13% frá fyrra ári. Framlagið jafngildir um 34% af greiddum örorkulífeyri
frá sjóðnum. Lífeyrisbyrði sjóðsins sem hlutfall af iðgjöldum var 55,1% samanborið við 56,2% á árinu 2011.
Líkt og undanfarin ár er Akureyrarkaupstaður stærsti launagreiðandi til sjóðsins með rétt um 300 milljónir króna í
iðgjaldagreiðslur á árinu. Alls greiddu 2.609 launagreiðendur iðgjöld til sjóðsins á árinu 2012. Þar af greiddu 15 stærstu
launagreiðendurnir sem svarar til 37% af iðgjöldum.
Að flestu leyti hagfellt rekstrarár
Í skýrslu stjórnar, sem Ágúst Torfi stjórnarformaður flutti, kom m.a. fram að árið 2012 hefði að flestu leyti verið hagfellt
rekstrarár fyrir Stapa lífeyrissjóð. Gjaldeyrishöft og fátæklegir fjárfestingakostir settu þó áfram svip á
fjárfestingarumhverfi sjóðsins og höfðu áhrif á mögulega ávöxtun eigna. Hann sagði að valkostum á fjármagnsmarkaði
færi þó fjölgandi og aðstæður hefðu almennt batnað. „Sjóðurinn hefur lagt áherslu á að auka vægi eigna, sem
líklegar eru til að gefa hærri ávöxtun en ríkistryggð skuldabréf til lengri tíma litið. Þetta mun hafa í för með
sér einhverja aukningu á áhættu í eignasafni sjóðsins en jafnframt auka líkurnar á að hann geti staðið við skuldbindingar
sínar í framtíðinni, þannig að ekki þurfi að koma til skerðingar á réttindum. Í þessu efni verður að horfa til
langs tíma, þar sem sveiflur til skemmri tíma geta verið talsverðar.“
Ágúst Torfi sagði að áunnin réttindi í Tryggingadeild hefðu verið lækkuð um 7,5% á árinu 2012 eins og samþykkt var
á síðasta ársfundi. „Tryggingafræðileg staða sjóðsins batnaði því á árinu, en hún var neikvæð
um 4,0% í árslok 2012 samanborið við 7,5% neikvæða stöðu í árslok 2011. Góð ávöxtun bætti stöðuna
nokkuð, en nýjar upplýsingar um auknar lífslíkur vógu þar á móti í formi hækkunar á skuldbindingum.“ Hann
sagði að nafnávöxtun Tryggingadeildar sjóðsins hefði verið 10,1% og raunávöxtun 5,3%.
Nýtt skipurit
Ágúst Torfi sagði að á árinu hefði verið haldið áfram að vinna að eflingu innra skipulags hjá sjóðnum og frekari
aðgreiningu einstakra þátta í starfseminni. „Ákveðið var að koma upp fjárfestingarráði, sem eingöngu sinnir
fjárfestingum og áhættustjóra sem eingöngu hefur áhættustýringu og eftirlit með höndum. Fjárfestingaráðið heyrir
undir framkvæmdastjóra, sem er þó ekki meðlimur í ráðinu. Áhættustjóri er ráðinn af stjórn og heyrir beint undir
hana. Það er jafnframt hlutverk áhættustjóra að sinna störfum fyrir endurskoðunarnefnd sem fylgist með innra eftirliti, endurskoðun og
áhættustýringu hjá sjóðnum. Markmið sjóðsins með þessum breytingum er að uppfylla ýtrustu kröfur sem gerðar eru til
ábyrgðar og aðgreiningar starfa, eins og frekast er kostur miðað við stærð sjóðsins. Þrír fagmenntaðir starfsmenn voru
ráðnir til sjóðsins til að koma þessu skipulagi á. Þetta hefur vissulega í för með sér aukinn kostnað, til skemmri tíma
litið, en það var mat stjórnarinnar að skipulagsbreyting af þessu tagi væri bæði æskileg og nauðsynleg. Það byggir á
því mati að sjóðurinn hafi nú náð þeirri stærð að geta staðið undir slíkri starfsemi, en einnig er verið að
koma til móts við þá gagnrýni sem verið hefur á óljóst skipulag og ábyrgðarsvið innan lífeyrissjóða. Vonast er
til að þessar breytingar skili sér í skilvirkari og vandaðri vinnubrögðum og betri undirbúningi við ákvarðanatökur. Þá
hefur þetta í för með sér að sjóðurinn sinnir nú sjálfur ýmsum verkefnum, sem áður var úthýst.“
Hæfismat FME
Ágúst Torfi fjallaði um hæfismat stjórnarmanna sem Fjármálaeftirlitið sér um. "Fjármálaeftirlitið hélt áfram
að kalla stjórnarmenn sjóðsins í hæfismat á árinu. Matið fer þannig fram að stjórnarmenn eru kallaðir fyrir sérstaka
ráðgjafanefnd hjá eftirlitinu, sem á grundvelli munnlegra samtala sker úr um hæfi viðkomandi stjórnarmanns. Eftirlitið hefur sett niður
möguleg efnisatriði sem tekin eru fyrir í þessum samtölum, en ekki hefur verið skilgreint hver lágmarksþekking stjórnarmanns á að vera.
Þó virðist fyrst og fremst litið til þekkingar í lögfræði og endurskoðun, en ekki til þess að fjölbreytt og mismunandi
þekking og reynsla stjórnarmanna sé hagfelldust fyrir stjórn lífeyrissjóðs. Þá er skoðun nefndarinnar á því hvort
stjórnarmaður hafi nægjanlega þekkingu á tilteknum þætti huglægt mat nefndarmanna, sem stjórnarmaðurinn hefur enga möguleika á
að sannreyna. Ljóst er að stjórnarmönnum hefur líkað misvel við þessa aðferðafræði. Jafnframt eru skiptar skoðanir um
mikilvægi þeirra þátta sem spurt er út í með tilliti til reksturs lífeyrissjóða. Þrír stjórnarmenn hjá
sjóðnum hafa ekki viljað una við þetta fyrirkomulag og hafa vikið úr stjórn sjóðsins þess vegna. Einn þessara aðila gaf
þó kost á sér sem varamaður að ósk Samtaka atvinnulífsins. Þrátt fyrir að aðeins væri um varamann að ræða
ákvað Fjármálaeftirlitið að víkja viðkomandi frá, þar sem hann hafi ekki staðist hæfismat þegar hann var aðalmaður.
Þetta var gert þrátt fyrir að engir varamenn hafi verið teknir í hæfismat. Allt þetta mál hlýtur að vekja upp vangaveltur um
möguleika sjóðfélaga til að gæta hagsmuna sinna með þátttöku í stjórn sjóðsins. Mikilvægt er að bakhjarlar
sjóðsins taki þetta til umræðu og móti stefnu um með hvaða hætti búið skuli um þessi mál. Ella kann að verða erfitt
að manna stjórnir lífeyrissjóða í framtíðinni," sagði Ágúst Torfi.
Breytingar í stjórn
Stjórnarkjör fór fram en skv. samþykktum sjóðsins bar að þessu sinni að kjósa tvo fulltrúar launamanna og tvo til vara og einn
fulltrúi launagreiðenda og einn til vara. Af hálfu launamanna voru Björn Snæbjörnsson og Pálína Margeirsdóttir kjörin og til vara Anna
María Elíasdóttir og Sverrir Mar Albertsson og af hálfu launagreiðenda var Guðrún Ingólfsdóttir kjörin aðalmaður og
Gunnþór Ingvason til vara. Ný stjórn kom saman í kjölfar ársfundar og skipti með sér verkum. Björn Snæbjörnsson var
kjörinn formaður stjórnar og Ágúst Torfi Hauksson varaformaður.
Þá samþykkti fundurinn tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins sem lagðar voru fyrir fundinn. Var m.a. um að ræða breytingar á fjölda stjórnarmanna, en þeim mun fjölgað úr 6 í 8, og mun stjórnarkjör á ársfundi 2014 taka mið af breyttum samþykktum. Aðrar samþykktarbreytingar voru smávægilegar.
Stjórn sjóðsins skipa nú:
Fyrir hönd launamanna: Björn Snæbjörnsson, Pálína Margeirsdóttir og Orri Freyr Oddsson. Varamenn eru: Ásgerður Pálsdóttir, Anna
María Elíasdóttir og Sverrir Már Albertsson.
Fyrir hönd atvinnurekenda: Ágúst Torfi Hauksson, Guðrún Ingólfsdóttir og Unnur Haraldsdóttir. Varamenn eru: Gunnþór Ingvason, Einar
Einarsson og Helga Steinunn Guðmundsdóttir.
Á heimasíðu Stapa má finna ársskýrsluna og glærur frá fundinum.