Ársfundur Stapa fór fram í gær

Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í gær og fór hann í fyrsta sinn fram rafrænt. Mæting á fundinn var góð og fór hann vel fram. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf. 42 fulltrúar frá Einingu-Iðju áttu rétt á setu á fundinum. 

Erla Jónsdóttir, formaður stjórnar, fór yfir skýrslu stjórnar um starfsemi sjóðsins á árinu 2020. Þá fór Jóhann Steinar Jóhannsson,  framkvæmdastjóri sjóðsins, yfir ársreikning sjóðsins og tryggingafræðilega stöðu Stapa sem tryggingastærðfræðingurinn Bjarni Guðmundsson vann fyrir sjóðinn. Einnig kynnti Brynjar Þór Hreinsson, forstöðumaður eignastýringar, fjárfestingarstefnu sjóðsins, ávöxtun og hluthafastefnu sjóðsins. Á fundinum voru samþykktar fjórar breytingar á samþykktum sjóðsins, sem Einar Ingimundarson lögfræðingur og Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttindasviðs Stapa kynntu. Erla, formaður stjórnar, kynnti starfskjarastefnu sjóðsins sem var samþykkt og þá var stjórnarkjöri lýst, en það fór fram á fulltrúaráðsfundi sjóðsins fyrr á árinu. 

Í máli Erlu, þegar hún flutti skýrslu stjórnar, kom m.a. fram að árið 2020 verði vafalaust lengi í minnum haft enda atburðarrás þess nokkuð sem enginn sá fyrir. Í upphafi ársins gerði Covid-19 veiran vart við sig og á fyrsta ársfjórðungi var ljóst að skæður heimsfaraldur hafði brotist út. "Ávöxtun eigna sjóðsins var af framangreindum ástæðum mjög sveiflukennd innan ársins. Á fyrsta ársfjórðungi lækkuðu hlutabréf í eignasafni sjóðsins töluvert en lágt áhættustig og dreifð eignasamsetning drógu úr áhrifum þessa á eignasafnið í heild. Í kjölfar vaxtalækkana og annarra örvandi aðgerða opinberra aðila til að stemma stigu við áhrifum Covid-19 tóku verðbréfamarkaðir við sér á ný og nam raunávöxtun eigna Stapa árið 2020 ríflega 9%. Sú góða ávöxtun kemur í kjölfarið á tæplega 10% raunávöxtun ársins 2019 og hafa undanfarin ár því verið meðal bestu ára sjóðsins hvað varðar ávöxtun. Ávöxtunarmarkmið sjóðsins er 3,5% raunávöxtun en meðalraunávöxtun undanfarinna 10 ára nemur 4,5%."

Þá kom fram í máli Erlu að hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris vex áfram hröðum skrefum, bæði vegna hækkandi iðgjalda og góðrar ávöxtunar. "Í árslok 2020 nam hún 295.868 milljónum króna og hækkaði um 39.735 milljónir króna á árinu. Hrein eign tryggingadeildar nam 288.345 milljónum króna og hrein eign séreignardeilda 7.523 milljónum."

 Ávarp stjórnarformanns í heild má sjá hér

Hægt var að fylgjast með fundinum í vefútsendingu á heimasíðu sjóðsins.

Gögn frá ársfundinum: