Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri fyrr í dag, þriðjudaginn 30. júní. Mæting á fundinn var góð og fór hann vel fram. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf. 42 fulltrúar frá Einingu-Iðju áttu rétt á setu á fundinum.
Erla Jónsdóttir, formaður stjórnar, fór yfir skýrslu stjórnar um starfsemi sjóðsins á árinu 2019. Þá fór Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, yfir ársreikning sjóðsins og tryggingafræðilega stöðu Stapa sem tryggingastærðfræðingurinn Bjarni Guðmundsson vann fyrir sjóðinn. Var ársreikningur sjóðsins samþykktur samhljóða að yfirferð lokinni. Einnig kynnti Brynjar Þór Hreinsson,forstöðumaður eignastýringar, fjárfestingarstefnu sjóðsins og hluthafastefnu sjóðsins. Á fundinum voru samþykktar breytingar á samþykktum sjóðsins, sem Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðurmaður réttindasvið Stapa kynnti. Erla, formaður stjórnar, kynnti starfskjarastefnu sjóðsins og þá var stjórnarkjöri lýst, en það fór fram á fulltrúaráðsfundi sjóðsins fyrr á árinu.
Í máli Erlu, þegar hún flutti skýrslu stjórnar, kom m.a. fram að ávöxtun eigna Stapa lífeyrissjóðs á árinu 2019 hefði verið með besta móti enda skiluðu allir eignaflokkar sjóðsins jákvæðri ávöxtun á árinu. "Niðurstaðan var rúmlega 10% raunávöxtun sem er besta ávöxtun í sögu sjóðsins í núverandi mynd. Langtímaávöxtunarmarkmið sjóðsins er 3,5% en meðalraunávöxtun undanfarinna 10 ára nemur 4,1%.
Réttindakerfi Stapa virkar á þann hátt að iðgjaldi sjóðfélaga er varið annars vegar í áfallatryggingar og hins vegar til myndunar réttindasjóðs. Þegar kemur að töku eftirlauna er réttindasjóðnum breytt í ævilangar mánaðarlegar greiðslur skv. töflum í samþykktum sjóðsins. Réttindasjóðurinn ávaxtast eins og hrein ávöxtun eigna sjóðsins. Ávöxtunin er mæld með eignavísitölu Stapa sem hækkaði um 13% á árinu. Þetta þýðir að réttur sjóðfélaga okkar til eftirlauna hækkaði um 13% á árinu.
Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris heldur áfram örum vexti, bæði vegna hækkandi iðgjalda og góðrar ávöxtunar. Í árslok 2019 nam hún 256.133 milljónum króna og hækkaði um 35.427 milljónir króna á árinu. Hrein eign tryggingadeildar nam 249.521 milljónum króna og hrein eign séreignardeilda 6.612 milljónum." Ávarp stjórnarformanns í heild má sjá hér
Hægt var að fylgjast með fundinum í vefútsendingu á heimasíðu sjóðsins.
Gögn frá ársfundinum: