Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í gær, miðvikudaginn 8. maí. Mæting á fundinn var góð og fór hann vel fram. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf. 41 fulltrúi frá Einingu-Iðju áttu rétt á setu á fundinum.
Erla Jónsdóttir, formaður stjórnar, fór yfir skýrslu stjórnar um starfsemi sjóðsins á árinu 2018. Þá fór Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, yfir ársreiknings sjóðsins og tryggingafræðilega stöðu Stapa sem tryggingastærðfræðingurinn Bjarni Guðmundsson vann fyrir sjóðinn. Var ársreikningur sjóðsins samþykktur samhljóða að yfirferð lokinni. Einnig kynnti Brynjar Þór Hreinsson, fjárfestingarstjóri Stapa, fjárfestingarstefnu sjóðsins.
Í máli Erlu kom m.a. fram að ávöxtun eigna Stapa hefði verið nokkuð sveiflukennd á árinu. "Eftir hagfellda þróun framan af ári hafði neikvæð þróun á flestum eignaflokkum afar neikvæð áhrif á síðustu vikum ársins. Ávöxtun eigna sjóðsins á árinu 2018 nam 4,8% sem samsvarar 1,5% raunávöxtun. Fjárfestingartekjur sjóðsins árið 2018 námu 10,2 milljörðum króna. Nafnávöxtun af innlendri skuldabréfaeign og erlendri hlutabréfaeign á árinu var viðunandi eða um 7% í báðum tilvikum. Innlend hlutabréf, sem námu 14% af heildareignum sjóðsins í árslok, drógu niður ávöxtun ársins en nafnávöxtun þeirra var neikvæð um 4%. Eignavísitala sjóðsins, sem endurspeglar hækkun réttindasjóðs sjóðfélaga, hækkaði um 4,9% á árinu. Ef ávöxtunin er skoðuð í sögulegu samhengi má sjóðurinn vel við una en meðalnafnávöxtun eigna sjóðsins hefur verið 6,2% undanfarin 5 ár og 6,8% undanfarin 10 ár."
Á fundinum voru lagðar fram tillögur að breytingum á einstökum greinum samþykkta sjóðsins og gerði Einar Ingimundarson lögmaður grein fyrir þeim. Voru allar breytingar samþykktar.
Þá var samhljóða samþykkt tillaga að Deloitte ehf. sem löggiltum endurskoðenda sjóðsins og einnig tillaga um stjórnarlaun.
Hægt var í fyrsta sinn að fylgjast með fundinum í beinni vefútsendingu á heimasíðu sjóðsins.
Gögn frá ársfundinum: