Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í Menningarhúsinu Hofi, Akureyri, miðvikudaginn 4. maí sl. Mæting á fundinn var góð og fór hann vel fram. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf. 37 fulltrúar frá Einingu-Iðju áttu rétt á setu á fundinum.
Þórarinn Sverrisson, formaður stjórnar, fór yfir skýrslu stjórnar um starfsemi sjóðsins á árinu 2015. Þá fór Guðmundur Baldvin Guðmundsson, starfandi framkvæmdastjóri sjóðsins, yfir ársreiknings sjóðsins og áritanir og tryggingastærðfræðingurinn Bjarni Guðmundsson gerði grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu. Var ársreikningur sjóðsins samþykktur samhljóða að yfirferð lokinni. Einnig kynntu fjárfestingarstjóri Arne Vagn Olsen og áhættustjóri Jóna Finndís Jónsdóttir fjárfestingar- og áhættustefnu sjóðsins.
Á fundinum var samþykkt starfskjarastefna Stapa, en hún byggir á meginreglum um góða stjórnarhætti og hefur það að markmiði sjóðurinn hafi ávallt á að skipa góðu og traustu starfsliði. Með því móti vill sjóðurinn treysta þá viðleytni sína að hann veiti framúrskarðandi þjónustu, hafi hagsmuni sjóðfélaga ávallt að leiðarljósi og að ætíð sé beitt vönduðum og faglegum vinnubrögðum í allri starfsemi hans. Starfskjarastefnan á þannig að leggja grunn að skilvirkni í starfsemi sjóðsins og stuðla að því að hann nái markmiðum sínum.
Á fundinum voru lagðar fram tillögur að breytingum á einstökum greinum samþykkta sjóðsins og gerði framkvæmdastjóri grein fyrir þeim. Voru allar breytingar samþykktar samhljóða að undanskilinni breytingu á grein 25.3 þar sem einn fundarmanna greiddi atkvæði á móti.
Stjórn Stapa lífeyrissjóðs skipa í dag:
Frá launamönnum: Huld Aðalbjarnardóttir, Sverrir Mar Albertsson, Tryggvi Jóhannsson og Þórarinn Sverrisson (varaformaður). Varamenn: Erla Björg Guðmundsdóttir, Heimir Kristinsson, Kristján Eggert Guðjónsson og Sigríður Dóra Sverrisdóttir.
Frá launagreiðendum: Ágúst Torfi Hauksson (formaður), Erla Jónsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Magnús E. Svavarsson. Varamenn: Auður Anna Ingólfsdóttir og Guðrún Ingólfsdóttir.
Þá var samhljóða samþykkt tillaga að Deloitte ehf. sem löggiltum endurskoðenda sjóðsins og einnig tillaga að hækkun stjórnarlauna frá síðasta ári.
Svipmyndir frá ársfundinum má sjá hér.
Gögn frá ársfundinum: