Áramótakveðja frá formanni

Árið 2017 var á margan hátt hagstætt, ef litið er á ýmsar opinberar tölur. Hagvöxtur var umtalsverður á árinu, horfur í efnahagsmálum þjóðarbúsins eru um margt jákvæðar og útlit er fyrir að hagvaxtarskeiðið geti staðið yfir í nokkur ár í viðbót, þrátt fyrir að líklega muni hægja eitthvað á hagvextinum. Samkvæmt hagspá ASÍ hefur íslenskt efnahagslíf náð toppi hagsveiflunnar. Skráð atvinnuleysi telst ekki vera mikið, eða um 3% á landinu öllu. Ýmislegt getur auðvitað breytt myndinni, svo sem ríkisfjármálin, ferðaþjónustan og húsnæðismálin. 

Kallað eftir jöfnuði
Þegar flestar hagtölur þjóðarbúsins eru jákvæðar, hlýtur að blasa við að stjórnvöld stuðli að því að auka jöfnuð og réttindi launafólks. Í því sambandi hefur verkalýðshreyfingin kallað eftir samstarfi við stjórnvöld um efnahagslegan og samfélagslegan jöfnuð. Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað bent á að skattbyrði launafólks hefur aukist, og mest hjá þeim sem eru með lægstu tekjurnar.  Við slíkt er ekki hægt að una. 

#metoo byltingin
Mikill fjöldi kvenna hefur stigið fram undir yfirskriftinni #metoo og mótmælt kynferðislegu ofbeldi og áreiti í öllum myndum og á öllum sviðum samfélagsins. Eining-Iðja mun beita sér fyrir því að uppræta þennan svarta blett á samfélaginu með öllum tiltækum ráðum.  Félagið hefur sett sér reglur er varða viðbrögð við einelti og kynferðislegri áreitni, ef upp kemur hjá félaginu. Allir þurfa í sameiningu að móta aðgerðaráætlun, þar sem svarað er kalli þeirra þúsunda kvenna sem stigið hafa fram og sagt frá kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundinni mismunun sem þær hafa orðið fyrir. Kynjamisrétti krefst virkrar þátttöku og er á ábyrgð allra. Í mínum huga verður verkalýðshreyfingin að taka virkan þátt í öllum aðgerðum sem miða að vitundarvakningu í þessum málum. 

75 íbúðir byggðar á Akureyri
Húsnæðisvandi þeirra tekjulægstu er gríðarlegur. Verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á að byggðar verði íbúðir á viðráðanlegu verði fyrir fólk með lágar- og meðaltekjur. Hið opinbera verður að styðja búsetuúrræði fyrir þá sem vilja eignast húsnæði og ekki síður fyrir leigjendur. Verkalýðshreyfingin hefur haft frumkvæði að mótun og endurreisn félagslegs leiguíbúðakerfis og beitt sér fyrir því að byggt verði upp varanlegt og traust kerfi. Bjarg íbúðafélag var stofnað í lok árs 2016 og er félagið rekið án hagnaðarmarkmiða.

Nýverið var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf Akureyrarbæjar og Bjargs íbúðafélags um byggingu 75 íbúða á vegum félagsins á Akureyri á næstu þremur árum.

Eining-Iðja mun leggja sín lóð á vogarskálarnar, þannig að þetta brýna hagsmunamál verði að veruleika. 

Ánægja með félagið
Verkalýðshreyfingin hefur ríkum skyldum að gegna. Tilgangur Einingar-Iðju er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna.

Samkvæmt nýrri viðhorfs- og kjarakönnun sem Gallup gerði fyrir Einingu-Iðju kemur glögglega í ljós að yfirgnæfandi hluti félagsmanna er ánægður með félagið. Þegar spurt var um þjónustu félagsins segjast 97% vera „sáttir“ eða „hvorki né,“ og þegar spurt var um hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur við félagið þegar á heildina væri litið sögðust tæplega 72% vera „ánægðir“ og 25% „hvorki né.“

Athygli vekur að þeir sem ekki höfðu nýtt sér þjónustu félagsins á árinu, eru síður ánægðir með þjónustuna. Rúmlega helmingur svarenda (félagsmanna) hafði nýtt sér þjónustu félagsins undanfarna 12 mánuði. 

Gleðilegt ár
Laugardaginn 10. febrúar 2018 kemur út bókin „Til starfs og stórra sigra“ en hún hefur að geyma 100 ára sögu Verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju og forvera þess. Jón Hjaltason sagnfræðingur hefur unnið að ritun bókarinnar undanfarin fjögur ár. Þessi dagur varð fyrir valinu vegna þess að 10. febrúar 1963 var Verkalýðsfélagið Eining stofnað upp úr nokkrum félögum sem sameinuðust í einu félagi.

Ég sendi félagsmönnum í Einingu-Iðju, sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilegt ár með þökk fyrir árið sem er senn liðið. 

Björn Snæbjörnsson
formaður Einingar-Iðju