Annasamt ár og góður árangur hjá Virk

Starfsendurhæfing er fjárfesting í fólki og hefur það að markmiði að auka þátttöku einstaklinga á vinnumarkaði bæði í kjölfar veikinda og slysa og oft einnig þrátt fyrir tilvist andlegra eða líkamlegra veikinda. Það getur verið mjög mikilvægt fyrir einstaklinga sem glíma við afleiðingar sjúkdóma eða slysa að fá tækifæri til að taka þátt á vinnumarkaði og oft er það mikilvægur þáttur í bataferli þeirra.

Árið 2013 var mjög annasamt hjá VIRK. Aðsókn í þjónustu jókst mjög mikið og á sama tíma var unnið markvisst að því að skerpa á öllum vinnuferlum og haldið áfram að byggja upp gott gæða- og öryggiskerfi. Í dag eru ríflega 1800 einstaklingar í þjónustu á vegum VIRK og um 5700 einstaklingar hafa leitað til VIRK frá því að byrjað var að veita þjónustu í lok árs 2009.

Um 32% fleiri einstaklingar komu inn í þjónustu á árinu 2013 miðað við árið 2012. Aðsóknin jókst jafnt og þétt allt árið og þannig komu um 65% fleiri einstaklingar í þjónustu síðari hluta ársins (frá september til desember) en á sama tíma á árinu 2012. Það eru margir þættir sem skýra þessa auknu aðsókn og má þar m.a. nefna aukið samstarf við lífeyrissjóði, heilbrigðisstofnanir, félagsþjónustu sveitarfélaga og fleiri aðila. Búist er við áframhaldandi aukningu í þjónustu á þessu ári m.a. með frekara samstarfi við lífeyrissjóði og ýmsar stofnanir velferðarkerfisins. Ráðgjafar VIRK eru nú 45 talsins og eru þeir staðsettir um allt land. Samstarf er síðan við mikinn fjölda góðra þjónustuaðila s.s. starfsendurhæfingarstöðvar, sálfræðinga, sjúkraþjálfa og símenntunaraðila.

Sífellt fleiri einstaklingar leita til VIRK sem hafa verið lengi utan vinnumarkaðar og eru að glíma við fjölþættan og erfiðan vanda. Meðaltími einstaklinga í þjónustu hefur einnig verið að lengjast og því hefur fjöldi þeirra sem lýkur þjónustu ekki haldist í hendur við fjölda þeirra sem koma nýir inn í hana. Gera má ráð fyrir því að hér séum við að takast á við bæði afleiðingar efnahagshrunsins og einnig gera lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu ráð fyrir að fleiri einstaklingar utan vinnumarkaðar eigi rétt á þjónustu en var fyrir gildistöku laganna.

Mynd 1 hér að neðan sýnir þróun á annars vegar fjölda einstaklinga sem komu nýir í þjónustu og hins vegar fjölda þeirra sem luku þjónustu árin 2010 til 2013:

Mynd 2 sýnir síðan þróunina mánuð fyrir mánuð árin 2012 og 2013. Eins og sjá má þá átti sér stað veruleg aukning í aðsókn síðari hluta ársins 2013:

Um 70% þeirra einstaklinga sem hafa lokið þjónustu hjá VIRK eru með vinnugetu og fara annað hvort beint í launað starf, virka atvinnuleit eða lánshæft nám. Einstaklingar sem ljúka þjónustu hjá VIRK eru flestir mjög ánægðir með þjónustuna og telja hana hafa skilað sér bæði í aukinni starfsgetu og betri líðan. Þannig telja um 78% einstaklinga sem svarað hafa þjónustukönnun í lok þjónustu að hvatning ráðgjafa VIRK hafa styrkt fyrirætlun þeirra að snúa aftur til vinnu.

Ávinningur starfsendurhæfingar getur verið gríðarlega mikill. Talnakönnun tók í lok árs 2011 saman skýrslu fyrir VIRK með nokkrum dæmum af ávinningi starfsendurhæfingar miðað við mismunandi forsendur um aldur og laun einstaklinga. Gerð er grein fyrir helstu þáttum þessarar skýrslu í ársriti VIRK 2012 sem er að finna hér á heimasíðunni. Í skýrslunni kemur m.a. fram að ávinningurinn getur numið um 100 milljónum króna fyrir ungan einstakling sem fer í vinnu í stað þess að fara á örorkulífeyri og er þá ekki tekið tillti til aukinna lífsgæða viðkomandi einstaklings eða áhrifa á önnur kerfi s.s. minni notkun á lyfjum og þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Það er því ljóst að til mikils er að vinna!