Annað þing ASÍ-UNG

Annað þing ASÍ-UNG fór fram í Reykjavík sl. föstudag. Birgitta Sif Jónsdóttir var fulltrúi Einingar-Iðju á þinginu. Húsnæðismál ungs fólks var aðal umfjöllunarefnið á þinginu og var málið rætt ítarlega í vinnuhópum sem fjölluðu annars vegar um fyrstu kaup og hins vegar um leigumarkaðinn. Eftirfarandi ályktun um húsnæðismál var samþykkt eftir fjörugar umræður. 

Húsnæði – mannréttindi ekki forréttindi
Þing ASÍ-UNG áréttar að íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum sé grundvallaratriði svo ungt fólk geti komið undir sig fótum og skapað fjölskyldum sínum góð lífsskilyrði. Aðgangur að öruggu íbúðarhúsnæði eru mannréttindi ekki forréttindi. Mikilvægt er að ungt fólk hafi raunhæft val um búsetuform og fái húsnæðisstuðning óháð því hvort það velji að leigja eða eiga húsnæði. 

Gera þarf leigu að raunhæfum valkosti á húsnæðismarkaði. Til þess þarf að stuðla að stofnun stórra leigufélaga sem tryggja öruggt langtíma leiguhúsnæði fyrir ungt fólk á viðráðanlegum kjörum. Þetta má m.a. gera með því að koma ónýttum íbúðum lánastofnanna í útleigu í stað þess að láta þær standa auðar. Auka þarf stuðning við leigjendur með því að hrinda sem fyrst í framkvæmd hugmyndum um eitt húsnæðisbótakerfi sem stuðlar að jafnræði milli búsetuforma. Tryggja þarf að tekjuskerðingar í húsnæðisbótakerfinu séu hóflegar svo það gagnist ungu fólki. Núverandi húsaleigubótakerfi styður ekki við ungt launafólk sem er með öllu óásættanlegt. 

ASÍ ung telur mikilvægt að greiðslumat vegna íbúðakaupa sé raunhæft og taki aukið mið af stöðu hvers og eins og geri þannig ungu fólki kleift að festa kaup á húsnæði. Hvetja þarf ungt fólk til húsnæðissparnaðar og koma þarf til móts við unga kaupendur með skatta ívilnun sem tryggir hraðari eignamyndun. 

Ný heimasíða ASÍ-UNG
Helgi Einarsson, fráfarandi formaður ASÍ-UNG, opnaði á þinginu nýja heimasíðu ASÍ-UNG. Vefsíðunni er ætlað að vera upplýsingabrunnur fyrir ungt fólk þar sem fróðleikur um réttindi og skyldur á vinnumarkaði er settur fram á snarpan og aðgengilegan máta. Á síðunni verður einnig að finna fréttir sem eiga erindi við ungt launafólk.

Heimasíða ASÍ-UNG