Fyrr í dag hélt félagið tvo fundi með trúnaðarmönnum félagsins sem starfa hjá sveitarfélögunum. Fyrri fundurinn fór fram á Akureyri og sá seinni í Fjallabyggð. Þarna var farið yfir þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í kjaraviðræðum við samninganefnd íslenskra sveitarfélaga en þær hafa staðið yfir frá því í febrúar sl. og er búið að halda nokkra fundi. Mikið ber á milli og vísaði SGS deilunni til sáttasemjara þann 28. maí sl. Síðan þá er búið að halda tvo fundi, ekkert gengið og deilan í hörðum hnút og þá sérstaklega varðandi lífeyrismál. Næsti fundur hjá Ríkissáttasemjara verður ekki fyrr en 21. ágúst nk. Samninganefnd sveitarfélaganna hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og félög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september nk. Samið hefur verið um innágreiðslu upp á kr. 105.000 fyrir 100% vinnu. Ríkissáttasemjari hafði milligöngu fyrir SGS hvort slíkt standi okkar félagsmönnum til boða en formaður samninganefndar sveitarfélaganna sagði nei þar sem búið væri að vísa deilunni til Sáttasemjara. Þann 2. júlí sl. fóru Björn formaður félagsins og Ásgrímur upplýsingafulltrúi og afhentu persónulega öllum sveitarstjórum eða staðgenglum þeirra á félagssvæðinu bréf til að koma á framfæri þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem vinna hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu. Í því fór félagið einnig fram á það að sveitarfélögin greiði starfsfólki sínu sem starfa eftir samningi SGS slíka innágreiðslu þann 1. ágúst að upphæð kr. 105.000 m.v. 100% starf þann 1. júní sl. og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall.
Verkfallsaðgerðir sem ekki hafa sést á undanförnum árum
Í ályktun sem samþykkt var samhljóða á báðum fundunum segir m.a. að ef eingreiðslan kemur ekki og samninganefnd SNS fer ekki að ljá máls á sjálfsögðu jafnræði, sbr. umrædda lífeyrisjöfnun, munu þau sjá verkfallsaðgerðir sem ekki hafa sést á undanförnum árum. Fundurinn hvetur félagsmenn sem vinna hjá sveitarfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu til að undirbúa sig fyrir hörð átök í haust sem munu koma niður á þjónustu við þá sem minnst mega sín. Þjónusta sveitarfélaganna við almenna borgara mun skerðast og stöðvast að miklu leyti ef til þessa kemur. Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á hendur samninganefnd sveitarfélaganna og sveitarstjórnum á svæðinu ef svo alvarlegt ástand skapast.
Hér fyrir neðan má lesa ályktunina í heild sem var samþykkt samhljóða á báðum fundunum.
Eyjafirði 10. júlí 2019
Ályktun
Fundur félagslegra trúnaðarmanna Einingar-Iðju hjá sveitarfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu, haldinn 10. júlí 2019.
Fundurinn skorar á sveitarstjórnir á Eyjafjarðarsvæðinu að samþykkja tilmæli félagsins um að þann 1. ágúst nk. fái félagsmenn Einingar-Iðju, sem starfa hjá þeim, greidda 105.000 króna eingreiðslu, m.v. fulla vinnu, upp í væntanlegan kjarasamning aðila, í samræmi við aðra starfsstéttir hjá sveitarfélögunum.
Fundurinn trúir því ekki fyrr en reynir á að lægst launaða fólkið verði skilið eftir og þannig mismunað eftir félagsaðild.
Fundurinn átelur samninganefnd íslenskra sveitarfélaga (SNS) harðlega að neita jöfnun lífeyrisréttinda, sér í lagi í ljósi þess að í síðustu samningum var tekin frá launahækkun í þeim tilgangi að jafna lífeyrisréttindi þessa hóps.
Ef eingreiðslan kemur ekki og samninganefnd SNS fer ekki að ljá máls á sjálfsögðu jafnræði, sbr. umrædda lífeyrisjöfnun, munu þau sjá verkfallsaðgerðir sem ekki hafa sést á undanförnum árum.
Fundurinn hvetur félagsmenn sem vinna hjá sveitarfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu til að undirbúa sig fyrir hörð átök í haust sem munu koma niður á þjónustu við þá sem minnst mega sín. Þjónusta sveitarfélaganna við almenna borgara mun skerðast og stöðvast að miklu leyti ef til þessa kemur.
Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á hendur samninganefnd sveitarfélaganna og sveitarstjórnum á svæðinu ef svo alvarlegt ástand skapast.