Alþýðusamband Íslands leggur áherslu á að við ákvarðanir um virkjanir og orkunýtingu sé byggt á faglegri vinnu verkefnisstjórnar um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða sem almennt er nefnd Rammaáætlun. Það á ekki að vera hlutverk ríkisstjórna eða stjórnmálamanna á hverjum tíma að endurskoða einstaka þætti Rammaáætlunarinnar eftir eigin geðþótta, enda er gert ráð fyrir að áætlunin verði endurskoðuð reglulega á faglegum forsendum miðað við nýjustu upplýsingar hverju sinni.
Því miður ákvað síðasta ríkisstjórn að rjúfa þá sátt sem verið hafði í undirbúningi Rammaáætlunar og skapaði með því fordæmi fyrir pólitískum inngripum í faglegar tillögur verkefnisstjórnar. Nú ætlar núverandi ríkisstjórn að nýta þetta fordæmi og sveigja Rammaáætlunina að sínum geðþótta. Þetta er óviðunandi og því hvetur miðstjórn ASÍ til þess að stjórnmálamenn staldri við og freisti þess að ná breiðri sátt um skipan þessara mála í stað þess að skylmast með þessum hætti. Það er mat miðstjórnar að upphafleg tillaga verkefnisstjórnar sé líklegust til þess að skapa slíka sátt og hvetur Alþingi til þess að fylgja niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar.
Greinargerð
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí s.l. kemur fram að áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða sem almennt er nefnd Rammaáætlun og samþykkt var á Alþingi í janúar, verði endurskoðuð. Strax á fyrstu starfsdögum nýs umhverfisráðherra var skipaður vinnuhópur sem hófst handa við endurskoðun áætlunarinnar. Verið er að skoða breytingu á stöðu í það minnsta átta virkjunarkosta, en sex þeirra voru færð úr nýtingarflokki í biðflokk við afgreiðslu Alþingis í janúar 2013. Einnig á að skoða tvo aðra virkjunarkosti vegna skorts á gögnum fagaðila, að mati núverandi umhverfisráðherra.
Í nóvember 2011 voru fyrstu tillögur til þingsályktunar auglýstar til umsagnar á vef þáverandi iðnaðarráðuneytis og sendi ASÍ inn umsögn dags. 9. nóvember 2011. Þar segir m.a.:
„Það er mat Alþýðusambandsins, eftir umræðu innan sinna vébanda, að knýjandi þörf er að ná breiðri samstöðu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Því leggur ASÍ áherslu á að tillagan til þingsályktunar fari óbreytt til meðferðar hjá Alþingi þar sem leitast er við að koma til móts við mismunandi sjónarmið og viðhorf ólíkra hópa sem láta sig málið varða.“
Í maí 2012 sendi ASÍ aftur inn umsögn um tillögu til þingsályktunar sem lögð var fyrir Alþingi 2012, um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þar gerir ASÍ athugasemdir við tillöguna varðandi virkjanakosti og segir:
„ASÍ gerir alvarlegar athugasemdir við þá tillögu til þingsályktunar sem hér er til umfjöllunar. Veigamiklar breytingar hafa verið gerðar á tillögunni frá þeim drögum sem kynnt voru sl. haust. Sex virkjanakostir; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Skrokkalda, Hágönguvirkjun I og Hágönguvirkjun II, sem skv. drögum að þingsályktunartillögu flokkuðust í nýtingarflokk eru nú flokkaðir í biðflokk. Í biðflokk er einungis gert ráð fyrir að setja þá virkjanakosti þar sem upplýsingar skortir til að hægt sé að ákvarða hvort setja eigi viðkomandi virkjunarkost í verndarflokk eða nýtingu.“
Þrátt fyrir þær athugasemdir sem ASÍ gerir segir einnig í umsögninni:
„ASÍ telur mikilvægt að Alþingi standi vörð um þau faglegu vinnubrögð sem einkennt hafa þá miklu og löngu undirbúningsvinnu sem að baki Rammaáætlunar liggur. Þá telur ASÍ mikilvægt að sú breiða sátt um fagleg vinnubrögð sem einkennt hefur allt undirbúningsferlið verði ekki rofin á lokametrum vinnunnar við áætlunina.“
Því miður ákvað síðasta ríkisstjórn að fara ekki að þessum ráðum þannig að ekki var sátt um afgreiðslu Rammaáætlunar sem þarf að vera á breiðum grunni og sannarlega voru pólitísk inngrip fyrri ríkistjórnar á þann veg að þau drógu úr áhrifum sáttar.
Mikilvægt er að ríkjandi stjórnvöld virði hverju sinni að flokkun virkjanakosta verði ekki breytt nema í samræmi við þau lög og vinnureglur sem gilda um Rammaáætlun. Sú tillaga að Rammaáætlunin sem upphaflega var lögð fyrir Alþingi byggði á vinnu fagmanna og tók mið af þeim umsögnum sem bárust í löngu og ítarlegu vinnuferli verkefnisstjórnarinnar. Miðstjórn ASÍ telur ennþá að sú tillaga sé líklegust til þess að skapa sátt.