Miðstjórn Alþýðusambands Íslands sér sig knúna til þess öðru sinni að fordæma framferði Ísraelshers á Gaza nú þegar árásarstríðið þeirra hefur varað í 72 daga. Á þessu tímabili hefur Ísrael virt alþjóðalög að vettugi, hafið þjóðarmorð, gereytt nauðsynlegum innviðum og hrakið nær alla íbúa Gaza á flótta á mjög takmörkuðu landssvæði sem hefur verið í herkví sl. 17 ár, einangrað og afskipt frá umheiminum.
Tilefni síðustu ályktunar miðstjórnar frá 1. nóvember sl. var ekki síst hjáseta Íslands við atkvæðagreiðslu um tafarlaust vopnahlé á fundi Sameinuðu þjóðanna í lok október. Góðu heilli hefur ríkisstjórnin snúið af þeirri leið og kosið með samskonar tillögu í vikunni sem leið.
Undanfarna áratugi hefur ASÍ, líkt og verkalýðshreyfingin um allan heim, reglubundið og ítrekað fordæmt árásir og hernaðaraðgerðir Ísraelshers á hendur palestínsku þjóðinni, bæði á Gaza og Vesturbakkanum. Nú krefjumst við þess að íslensk stjórnvöld taki höndum saman með verkalýðshreyfingunni og rói að því öllum árum að binda enda á hið stórfellda ofbeldi og kúgun sem viðgengst hvern einasta dag í Palestínu.
ASÍ ítrekar fyrri áskoranir á íslensk stjórnvöld um að hnitmiðuðum viðskiptaþvingunum verði beitt gegn Ísrael þar til hernámi, árásum og þjóðarmorði verði hætt. Viðskiptabann er viðurkennd aðferðafræði til að spyrna við kúgun, ofbeldi og aðskilnaðarstefnu eins og vel er þekkt t.d. frá Suður-Afríku. Ekki er síður ástæða til inngripa með sama hætti nú. Alþýðusambandið mun fyrir sitt leyti styðja við aðgerðir BDS-hreyfingarinnar á Íslandi (e. Boycott, Divestment and Sanctions).
ASÍ fer sömuleiðis fram á að íslensk stjórnvöld skoði nú sérstaklega slit á stjórnmálasambandi við Ísrael í ljósi óhugnanlegra mannréttindabrota og stríðsglæpa sem viðgangast nú og hafa gert um langt skeið. Í þessu samhengi er vert að benda á hvernig íslensk stjórnvöld hafa í reynd slitið stjórnmálasambandi við Rússland vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Alþýðusamband Íslands hlýtur að kalla eftir því að íslensk stjórnvöld séu samkvæm sjálfum sér þegar kemur að því að meta stjórnmálasamskipti við önnur ríki.
ASÍ hvetur jafnframt íslensk stjórnvöld til að veita palestínskum umsækjendum um hæli af mannúðarástæðum umsvifalaust vernd með svipuðum einhug og gert hefur verið gagnvart flóttafólki frá Úkraínu.
Alþýðusamband Íslands hefur ákveðið að veita fé til hjálparstarfs í Palestínu og hvetur aðildarfélög sín til að gera slíkt hið sama.