Ályktun miðstjórnar ASÍ um meðferð lögreglunnar á meintum brotum á lögum og reglum um niðurrif asbests

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega meðferð embættis lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins á máli er varðar niðurrif asbests 2012 þar sem fyrir liggur að fyrirtæki komast upp með að brjóta á lögbundnum rétti starfsmanna til vinnuverndar vegna aðgerðarleysis. Það er til lítils að hafa lög til verndar launafólki þegar ákæruvaldið aðhefst ekkert í jafn alvarlegu máli og þessu. Það er margsannað að asbest er krabbameinsvaldandi og afleiðingar af því að anda að sér asbestsryki eru þannig að engin lækning er til.

Greinargerð
Vinnueftirlit ríkisins kærði byggingarfyrirtæki þann 12. janúar 2012 fyrir meint brot á lögum og reglum sem gilda um niðurrif asbests. Meint brot fyrirtækisins felst í því að láta starfsmenn sína rífa niður asbest af þaki húss án þess að hafa til þess tilskilin leyfi frá Vinnueftirlitinu, án þess að starfsmenn viðkomandi fyrirtækis hefðu gengist undir lögbundið námskeið um meðferð asbests og án þess að útvega starfsmönnum sínum sérstakan vinnufatnað eða öndunargrímur, og með þessum hætti ógnað heilsu þeirra eða valdið þeim óafturkræfu heilsutjóni.

Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu felldi málið niður þrátt fyrir að yfirmenn fyrirtækisins hafi nánast játað að hafa farið á svig við lög um þetta efni. Síðar kom í ljós að málið hafði fyrnst í meðförum embættisins.

Ef nauðsynlegt er að treysta löggjöfina enn frekar til að fylgja eftir reglum sem þessum þá er þess krafist að félags- og húsnæðismálaráðherra sjái til þess að þetta mál verði kannað og gerðar þær umbætur á lögum og reglum sem þarf til að svona gerist ekki aftur.