Ályktun miðstjórnar ASÍ um heilbrigðismál

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi miðstjórnar ASÍ í gær, 1. september 2021.


Fjárframlög til heilbrigðisþjónustu hafa ekki haldist í hendur við aukna þörf vegna hækkandi lífaldurs, fjölgunar ferðamanna og fjölbreyttari þarfa almennings. Heilbrigðiskerfið tók þungan skell eftir bankahrunið og hafði fram að því sætt miklum aðhalds- og hagræðingarkröfum. Fjárframlög til heilbrigðismála miðað við mannfjölda hafa aðeins nýlega orðið sambærileg því sem var fyrir hrun. Frá árinu 2001 hafa framlög til Landspítalans aukist um 11,5% á meðan fjármagnsþörfin hefur aukist um 38% með tilliti til aukinna útgjalda. Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er því rétt að hefjast.

Viðvarandi fjárskortur hefur dregið úr trausti á heilbrigðiskerfinu. Þetta hefur búið til farveg fyrir aukinn skriðþunga þeirra sem aðhyllast hugmyndafræði einkareksturs, þrátt fyrir að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vilji að hið opinbera eigi og reki heilbrigðisþjónustuna. Á Íslandi er löng hefð fyrir því að óhagnaðardrifin félög reki hluta heilbrigðisþjónustunnar en það gegnir öðru máli þegar um arðdrifin „viðskipti“ er að ræða þar sem fjármagnseigendur sjá tækifæri til að ávaxta sitt pund í gegnum „rekstur“ sem fjármagnaður er af hinu opinbera. Eftir því sem auður vex og safnast á færri hendur, vex þrýstingur fjármagnseigenda til innreiðar í velferðarkerfi sem fjármögnað eru af hinu opinbera. Markaðsdrifin heilbrigðiskerfi eru dýrari fyrir skattgreiðendur og kostnaði er haldið í lágmarki með lakari launum og meiri greiðsluþátttöku sjúklinga. Á sama tíma er auðvelt að sýna fram á aukna „framleiðni“ með oflækningum, undirmönnun eða færibandavinnu í umönnun.

Farsælustu heilbrigðiskerfin og þau sem eru best í stakk búin til að gæta jöfnuðar og mæta óvæntum áföllum, svo sem stórslysum, náttúruhamförum og heimsfaröldrum, eru kerfi sem byggjast á samfélagslegri hugsun frekar en gróðahugsun. Ójöfnuður í heilsu er viðvarandi verkefni sem verður einungis mætt með skilvirku opinberu kerfi með jöfnu aðgengi allra. Nú þegar hafa tekjur og búseta fólks áhrif á möguleika til að leita sér heilbrigðisþjónustu og við slíkt verður ekki unað.

Ef þörf fyrir uppbygginu innviða og aukna þjónustu er ekki mætt með viðeigandi fjármögnun er hætt við að heilsufari þjóðarinnar haldi áfram að hraka og að ójöfnuður í heilsu haldi áfram að aukast. Áframhaldandi einkavæðing kerfisins myndi fela í sér samskonar hættu, auk meiri kostnaðar og minni árangurs til lengri tíma. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands geldur varhug við arðvæðingu heilbrigðisþjónustunnar og skorar á stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis að tjá sig með skýrum hætti gegn slíkum hugmyndum og fyrir uppbyggingu öflugs, opinbers heilbrigðiskerfis – sem þjónar okkur öllum.

Nánari greiningu má lesa í nýrri skýrslu ASÍ um heilbrigðismál.