Ályktun miðstjórnar ASÍ um frekari aðgerðir til stuðnings launafólki

Fyrstu efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bregðast við afleiðingum COVID 19 faraldursins miða að því að tryggja lágmarkslaun fyrir fólk sem taka þarf á sig skert starfshlutfalli eða fara í sóttkví vegna veirunnar. Niðurstaða lagasetningarinnar er betri en frumvörpin gáfu til kynna í upphafi og að töluverðu leyti var komið til móts við athugasemdir vinnandi fólks. Ljóst er þó að frekari aðgerða er þörf ef koma á í veg fyrir fjöldauppsagnir og fjárhagserfiðleika heimila í landinu. Lykillinn að farsælli endurreisn samfélagsins liggur í stuðningi við almenning og kaupmátt hans og uppbyggingu atvinnulífs sem er grundvallað á jöfnuði, sjálfbærni, nýsköpun og samfélagslega ábyrgum gildum. Sú mikla óvissa og óöryggi sem skapast hefur um afkomu launafólks afhjúpar með skýrum hætti mikilvægi formlegra ráðningarsambanda sem ramma inn skyldur atvinnurekenda og yfirvalda þegar hriktir í stoðum efnahagslífsins. Kjarasamningar og þau afkomutryggingakerfi sem launafólk hefur barist fyrir reynast við þessar aðstæður vera sú vörn sem mestu máli skiptir. Miðstjórn ASÍ telur eftirfarandi aðgerðir nauðsynlegar til skemmri og lengri tíma:

Tryggjum afkomu- og búsetuöryggi

Að þegar í stað verði úrræði tryggð fyrir launafólk sem ekki getur sótt vinnu vegna skerts skólastarfs barna sinna. Jafnframt verði tryggt að launafólk í sérstakri áhættu vegna alvarlega undirliggjandi sjúkdóma geti átt rétt á bótum fari það í sóttkví að tilmælum læknis þó það hafi ekki verið skyldað í sóttkví af heilbrigðisyfirvöldum. ASÍ gerði kröfu til þess að til þessara hópa yrði tekið tillit við afgreiðslu laga um laun í sóttkví en ekki var við því orðið.

Að grunnatvinnuleysisbætur og tekjutengdar atvinnuleysisbætur verði hækkaðar til að mæta þeim sem verða án atvinnu í lengri tíma.

Að barnabótakerfið verði styrkt til framtíðar með auknum framlögum.

Að gefin verði út tilmæli til opinberra aðila, sveitarfélaga, leigufélaga og fjármálastofnanna að sýna sanngirni og sveigjanleika varðandi greiðslufresti á meðan mesta óvissan stendur yfir, innheimtukostnaður og dráttarvextir verði ekki lagðir á vanskil og fólki gefist tækifæri til að dreifa greiðslum.

Að ef ákveðið verði að veita fyrirtækjum ríkisábyrgð á skuldum sínum gerir ASÍ kröfu um að ríkisstjórn Íslands veiti heimilum sem lenda í greiðsluerfiðleikum ríkisábyrgð með sama hætti hvort sem er vegna húsnæðislána, bílalána eða annarra íþyngjandi skuldbindinga.

Að heimilum gefist kostur á að fresta greiðslu opinberra gjalda vegna greiðsluerfiðleika með sama hætti og fyrirtækjum. Sveitarfélög skoði að mæta íbúum með frestun á greiðslu fasteignagjalda tímabundið.

Að komið verði í veg fyrir að heimili landsins greiði kostnað við verðbólgu í gegnum lánin sín vegna gengisfalls krónunnar. Verðtrygginglána verði fryst tímabundið þannig að möguleg aukin verðbólga birtist ekki í hækkun á verðtryggðum höfuðstóli húsnæðislána og aukinni greiðslubyrgði. ASÍ vill vekja athygli á að hefðbundið neyslumynstur er ekki í neinu samræmi við það neyslumynstur sem fólk hefur þurft að temja sér við þær óvenjulegu aðstæður sem skapast hafa vegna COVID 19.

Að framkvæmd hlutdeildarlána og fjölgun almennra íbúða verði hraðað. Til að örva húsnæðismarkaðinn og stuðla að húsnæðisöryggi allra hópa verði lagasetningu og framkvæmd fyrirhugaðra hlutdeildarlána fyrir fyrstu kaupendur og þá sem ekki hafa átt húsnæði síðastliðin fimm ár hraðað eins og nokkur kostur er. Þá verði framlög til almenna íbúðakerfisins aukin umfram núverandi áætlanir til að flýta uppbyggingu kerfisins og útvíkka markhóp þess.

Verjum grunnstoðirnar

Að opinber fjárstuðningur til fyrirtækja verði þeim skilyrðum háður að ekki sé greiddur arður úr þeim fyrirtækjum næstu tvö árin. Grunnstoðir verði tryggðar, heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi sem rekin eru með skattgreiðslum séu ávallt rekin með velferð allra í huga og án hagnaðarsjónarmiða.

Að ríkissjóður afsali sér ekki tekjum að nauðsynjalausu svo sem með því að flýta afnámi bankaskatts.

Að tryggt sé að grunnþjónusta sveitarfélaga séu í stakk búnar til þess að mæta auknu álagi og takast á við aðstæður á hverjum stað. Ekki verði innheimt gjöld fyrir þjónustu sem skert er vegna tímabundinna aðstæðna vegna COVID 19.

Að heilbrigðiskerfinu verði tryggt nauðsynleg fjárframlög og önnur úrræði til að mæta auknu álagi og verkefnum vegna faraldursins. Ekki má koma til þess að skera þurfi niður í hefðbundinni starfsemi heilbrigðiskerfisins og draga úr annarri nauðsynlegri þjónustu vegna fjárskorts af völdum aukinna verkefna sem fylgja COVID 19. Verði það raunin munu afleiðingar faraldursins dragast á langinn og valda uppsöfnuðum vanda innan heilbrigðiskerfisins og samfélagsins alls sem erfitt getur reynst að vinna á.  

Endurreisum og byggjum til framtíðar

Að komið verði á átaki í vinnumarkaðsaðgerðum með skjótum og markvissum aðgerðumtil að tryggja afkomuöryggi og þjónustu við þann hóp sem missir störf sín við vegna aðstæðna. Að settur verði á fót sérstakur starfshópur nú þegar með stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðarins, Vinnumálastofnun, skólakerfinu og öðrum fræðsluaðilum til að koma með tillögur að árangursríkum verkefnum sem hægt er að koma á fót með skömmum fyrirvara til að styðja við aukinn fjölda atvinnulausra. Í því samhengi verði sérstaklega horft til þess hvaða lærdóm megi draga af verkefnum eins og „Vinnandi vegur“ sem sett var á í kjölfar efnahagshrunsins. Við skipulag og fjármögnun verkefna verði sérstaklega gætt að því að þau nýtist viðkvæmum hópum á vinnumarkaði og tekið verði mið af kynja- uppruna- og byggðasjónarmiðum. Einnig verði hugað að afkomu og úrræðum fyrir þann vaxandi hóp launafólks sem hefur ótryggt ráðningarsamband eða hefur afkomu sína af verkefnatengdri vinnu án afkomutryggingar.

Að lífeyrissjóðirnir taki þátt í uppbyggingunni með fjárfestingum í nýsköpun og öðrum samfélagslega ábyrgum fjárfestingakostum

Að 100% endurgreiðsla af virðisaukaskatti vegna vinnu verði útvíkkaður enn frekar með tilliti til þeirra starfsgreina og starfsstétta sem verða harðast úti í samdrættinum, hvort sem vinnan er innt af hendi innan heimila eða utan.

Að við endurskoðun fjármálastefnu og framlagningu fjármálaáætlunar tryggi stjórnvöld að jafnvægi sé milli efnahagslegs- og félagslegs stöðugleika. Ekki verði farin sú leið að draga úr styrk og uppbyggingu félagslegra innviða- og stuðningskerfa og veikja þau við núverandi aðstæður. Slíkt er dýrkeypt til lengri tíma. Hinir félagslegu innviðir eru og verða einn af styrkleikum okkar og samkeppnisforskot í þeim stóru verkefnum sem þrátt fyrir allt bíða okkar við umbreytingar á vinnumarkaði og við að ná tökum á loftslagsbreytingum. Aukning í opinberum fjárfestingum er mikilvægt innlegg til að örva efnahagslífið og undirbyggja velferð til framtíðar. Nauðsynlegt er að horft verði til fjölbreyttra verkefna og sviða í þeim efnum sem stuðli að nýsköpun í atvinnulífi og grænum lausnum.

Að skattkerfið verði nýtt með markvissum hætti til frekari tekjujöfnunar. Gerðar verði frekari breytingar á skattkerfinu sem miða að því að styrkja tekjuöflunar- og tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. Þá verði horft sérstaklega til þess hvernig beita megi grænum sköttum og efnahagslegum mótvægisaðgerðum til að draga úr loftslagsáhrifum og samhliða auka jöfnuð og koma í veg fyrir neikvæð íþyngjandi áhrif á útsetta hópa.

Að nýjar stoðir tækni, nýsköpunar og grænna lausna verði byggðar undir atvinnulífið með fjárfestingaráætlun stjórnvalda. Horft verði til fjölbreyttra fjárfestingaverkefna í nýrri fjárfestingaráætlun stjórnvalda sem boðuð hefur verið. Áhersla verði á uppbyggingu og viðhald bæði efnahags- og félagslegra innviða og ekki síður verkefni sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda ss. hraðari uppbyggingu almenningssamgangna og borgarlínu og öðrum aðgerðum sem stuðla að orkuskiptum. Þá er mikilvægt að opinber fjárfesting verði nýtt með markvissum hætti til að auka fjölbreytileika atvinnulífs með áherslu á uppbyggingu grænna starfa, nýsköpun, tækniþekkingu og rannsóknir og þróun t.d. á sviði heilbrigðisvísinda. Við fjárfestingaáætlanir verði tekið tillit til kynja- og byggðasjónarmiða auk sjálfbærni.