Ályktun miðstjórnar ASÍ um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022

 

  • Skerða á réttindi atvinnuleitenda og stytta á bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 30 mánuðum í 24 mánuði. Þetta er alvarleg aðför að grundvallar réttindum launafólks.
  • Þrátt fyrir ítrekuð loforð um aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar er rekstur hennar áfram vanfjármagnaður.
  • ASÍ tekur undir mikilvægi þess að setja þak á greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni en ítrekar mótmæli sín gegn því að sú breyting sé fjármögnuð að stærstum hluta með hækkun á kostnaði hjá megin þorra notenda og krefst þess að staðið verði við 50 þúsund króna árlegt kostnaðarþak.
  • Áformuð fjölgun hjúkrunarrýma fram til ársins 2022 nemur einungis rúmlega helmingunum af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými til ársins 2020.
  • Þrátt fyrir stöðuga fækkun barneigna undanfarin ár eru stuðningskerfi við ungt fólk ekki efld.
  • Barna- og húsnæðisbótakerfin sem eru mikilvæg tekjujöfnunartæki eru áfram veikt og fjölskyldum sem fá stuðning úr þessum kerfum mun að óbreyttu halda áfram að fækka.
  • ASÍ fagnar áformaðri hækkun á hámarksgreiðslum til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði í 600 þúsund krónur á mánuði í áföngum fram til ársins 2020 en telur jafnframt nauðsynlegt að tekjur upp að 300.000 krónum á mánuði skerðist ekki og að fæðingarorlof verði lengt úr 9 mánuðum í 12 í áföngum.
  • Vegna ástandsins á húsnæðismarkaði er nauðsynlegt að auka stofnframlög til byggingar hagkvæmra leiguíbúða í almenna íbúðakerfinu úr 600 í 1.000 á ári næstu árin.
  • Ekki stendur til að gera löngu tímabærar breytinga á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþega, fyrr en á árinu 2019. Á meðan búa örorkulífeyrisþegar áfram við flókin, ógagnsæ réttindi almannatrygginga með krónu á móti krónu skerðingum á þann hóp sem verst stendur.