Ríkið ber ábyrgð á launum á hjúkrunarheimilum
Tilfærsla á verkefnum hjúkrunarheimila víða á landsbyggðinni síðustu mánuði til ríkisins eða einkarekinna fyrirtækja hefur opinberað verulegan launamun innan starfsgreina sem starfa við aðhlynningu. Töluverður árangur hefur náðst í samningum við sveitarfélög og stofnanir síðustu ár víða um land en sá árangur er í hættu. Við breytingar á rekstri er greinilega ætlunin að miða við lægstu mögulega taxta á höfuðborgarsvæðinu við nýráðningar og getur þar munað allt að 48.000 krónum í grunnlaunum. Krafan er að hækka laun þeirra lægst launuðu en ekki að færa aðra niður í launum.
Einkavæðing velferðarþjónustu verður ekki liðin enda felur hún í sér kröfu um hagræðingu og hefur ítrekað sýnt sig að einkavæðing grunnstoða kemur niður á starfsfólki, skjólstæðingum og opinberum sjóðum þegar upp er staðið.
ASÍ mótmælir því harðlega að tilfærsla hjúkrunarheimila feli í sér kjaraskerðingu lægst launuðu stéttanna sem hafa barist fyrir sínum kjörum í áratugi. Daggjöld hjúkrunarheimila eru of lág og fela beinlínis í sér hvata til að greiða lægstu hugsanlegu laun. Það er því á ábyrgð ríkisins að tryggja að laun haldist og greidd séu sömu laun fyrir sömu störf óháð búsetu.