Á fundi trúnaðarráðs Einingar-Iðju sem fram fór í gær var samþykkt ályktun vegna kjaradeilu starfsfólks í álverinu í Straumsvík við viðsemjendur sína.
Ályktun trúnaðarráðs Einingar-Iðju vegna kjaradeilu starfsfólks í álverinu í Straumsvík við viðsemjendur sína.
Trúnaðarráð Einingar-Iðju lýsir yfir áhyggjum vegna kjaradeilu starfsfólks í álverinu í Straumsvík við viðsemjendur sína. Sanngjörnum kröfum þeirra stéttarfélaga sem hlut eiga að máli er mætt af hroka og ábyrgðaleysi. Yfirlýsingar hins alþjóðlega móðurfyrirtækis um launafrystingu verður aðeins skilin sem aðför að samningsfrelsi á íslenskum vinnumarkaði.
Jafnframt fordæmir ráðið yfirmenn Ísal í Straumsvík fyrir að ganga í störf hafnarverkamanna í morgun. Kjaradeilan er orðin langvinn og því þarf ekki að undra þótt gripið sé til aðgerða til að þrýsta á um kjarabætur.
Trúnaðarráð Einingar-Iðju lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu starfsmanna í Straumsvík og rétti þeirra fyrir því að gerðir við þá kjarasamningar eins og íslensk lög gera ráð fyrir.
Trúnaðarráð Einingar-Iðju
24. febrúar 2016