Á fundi í samninganefnd Einingar-Iðju sem haldinn var í gær, mánudaginn 25. nóvember, var eftirfarandi ályktun vegna auglýsingaherferðar Samtaka atvinnulífsins samþykkt samhljóða. Fyrr í morgun var ályktunin send til Samtaka atvinnulífsins og á fjölmiðla.
Ályktun
Samninganefnd Einingar-Iðju tekur heilshugar undir yfirlýsingu samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands um að auglýsing Samtaka atvinnulífsins sé
ósmekkleg og hrokafull. Þar kemur fram að verðbólga sé launahækkunum hjá almennu launafólki að kenna. Þetta er skrumskæling
á sannleikanum.
Það er ekkert minnst á launskrið til þeirra sem hærri hafa launin. Þau eru ákveðin af atvinnurekendum sjálfum.
Það er ekkert minnst á hækkanir á vöruverði, sem eru lagðar á áður en nýir samningar taka gildi.
Það er ekkert minnst á gjaldskrárhækkanir á opinberri þjónustu, sem eru tilkomnar af versnandi stöðu sveitarfélaganna og annarra opinberra stofnana.
Það er engum til framdráttar að kjarasamningaviðræður fari fram í auglýsingatímum fjölmiðla, heldur væri nær að setjast að samningaborði og semja við launafólk um sanngjörn kjör.