Ályktun af aðalfundi Einingar-Iðju um misskiptingu í þjóðfélaginu

Eftirfarandi ályktun var samþykkt með lófaklappi á aðalfundi Einingar-Iðju í gær.

Baráttan gegn skattaskjólum er alþjóðleg barátta fyrir sanngirni, jöfnuði og velferð
Heildarsamtök launafólks á Íslandi hafa barist í heila öld fyrir bættum kjörum og betri lífsgæðum. Í því felst, ekki einungis, baráttan fyrir hærri launum heldur fyrir sterku velferðarkerfi og jöfnuði. Í samfélagssáttmála okkar er gengið út frá því að fólk greiði skatta og í staðinn sé tryggt að fólk komist af þó það sé atvinnulaust, aldrað eða missi heilsuna, fólk hafi aðgang að menntakerfi óháð efnahag og geti leitað sér lækninga án þess að það sé fjárhagslega íþyngjandi – að allir hafi sem jafnasta möguleika í lífinu. 

Nú er ljóst að samfélagssáttmálinn náði ekki til allra, fólk gat valið sig frá honum með því að geyma peningana sína í skattaskjólum og greiða í sameiginlega sjóði eftir hentisemi. Að geyma fé í skattaskjólum er í besta falli siðlaust og í versta falli stuldur úr sameiginlegum sjóðum, stuldur á jöfnuði og velferð. 

Verkalýðshreyfingin berst fyrir því hvern dag að fólk fái greidd sanngjörn laun fyrir sína vinnu, að einstaklingar og fyrirtæki greiði í sameiginlega sjóði og að lífskjör verði bætt. Ef sumir geta valið sig frá sköttum og ráðamenn þjóðarinnar telja sig ekki þurfa að standa skil á sínum fjármunum er afleiðingin fullkomið siðrof. Skilaboðin eru þá þau að einstaklingar og fyrirtæki í landinu geti veitt fjárhagslegar upplýsingar að vild og greitt skatta eftir minni. 

Aðalfundur Einingar-Iðju  krefst þess að allir sem hafa átt félög eða bankareikninga í skattaskjólum leggi allt uppá borðið, rannsókn fari fram og þeim peningum sem hefur verið stolið úr ríkiskassanum verði skilað og þeir notaðir í sameiginlega velferð. Aðeins þannig er hægt að endurheimta, ekki aðeins fjármuni heldur siðferði og traust í íslensku samfélagi.